41 árs karlmaður var tekinn af lífi í Texas í gær fyrir þrjú morð sem hann var dæmdur fyrir að fremja árið 1993. Hann er 519. maðurinn sem er líflátinn í Texas eftir að Hæstiréttur Bandaríkjanna heimilaði dauðarefsingar á ný árið 1976. Ekkert annað ríki hefur tekið jafnmarga af lífi.
Arnold Prieto var dæmdur fyrir að myrða þrjá í ráni sem hann framdi á heimili ættingja sinna í San Antonio. Hann var tekinn af lífi með banvænni lyfjablöndu í Huntsville-fangelsinu í gærkvöldi.
„Það er enginn endir, aðeins upphaf. Elska ykkur öll og sé ykkur bráðlega,“ sagði Prieto áður en hann lést að sögn fangelsisyfirvalda.
Prieto og tveir aðrir karlmenn komu á heimili aldraðra hjóna hinn örlagaríka dag. Hjónin gáfu þeim morgunmat. Tveir mannanna, Prieto og Jesse Hernandez, réðust hins vegar á gömlu hjónin með skrúfjárni og myrtu einnig 92 ára mann sem einnig var í húsinu.
Mennirnir voru allir undir áhrifum kókaíns. Þeir fóru ránshendi um húsið, stálu bæði peningum og öðrum verðmætum en höfðu aðeins nokkur hundruð dali upp úr krafsinu, að því er fram kom í máli saksóknarans á sínum tíma, að því er fram kemur í frétt Reuters um málið.
Hernandez var ekki orðinn átján ára er morðin voru framin og fékk því ekki dauðadóm. Hann afplánar hins vegar lífstíðardóm. Þriðji maðurinn, bróðir Hernandez, var ekki ákærður.
„Þetta var algjörlega tilefnislaus árás,“ sagði Rico Valdez, saksóknarinn í málinu. „Þeir stungu fólkið margsinnis, gamalt fólk sem var algjörlega varnarlaust.“