Hundurinn Kai varð heimsfrægur eftir að hann var skilinn eftir á lestarstöð í Skotlandi. Kai fannst bundinn við ferðatösku sem innihélt hans helstu eigur. Nú á Kai nýjan eiganda.
Kai fannst 2. janúar fyrir utan lestarstöðina í Ayr. Í töskunni var koddinn hans, leikfang, matarskál og matur. Eftir að sagt var frá Kai bárust fjölmargar beiðnir frá fólki sem vildi fá að eiga hundinn. Góðgerðarsamtökin SPCA sem hafa séð um Kai síðan hann fannst völdu Ian Russell sem eiganda Kai. Hann er 52 ára gamall og telur að það hafi verið örlögin sem leiddu Kai og hann saman.
„Ég er ótrúlega glaður og hissa að ég hafi verið valin af öllu þessu fólki,“ sagði hann í samtali við BBC.
Russell átti áður dalmatíuhund sem lést rétt fyrir jól og átti Russell mjög erfitt með að höndla það. Átti hann hundinn í fimmtán ár og voru þeir bestu vinir.
Russell segir að hann og Kai munu eiga gott og ævintýraríkt líf saman. „Ég starfa út um allt Skotland, aðallega utandyra og keyri hvert sem ég þarf í bílnum mínum. Kai kemur með mér og þegar það er hægt fær hann að hlaupa frjáls og leika sér á meðan ég vinn. Svo stökkvum við inn í bílinn aftur og á næsta stað. Við verðum alltaf saman.“
Yfirmaður góðgerðarsamtakanna SPCA, Alan Grant, sagði að tilboð um að taka Kai hafi komið frá öllum heimshornum. „Það komu tilboð frá stöðum eins og New York, Los Angeles, Frakklandi, Spáni og meira að segja Filippseyjum,“ sagði Grant í samtali við BBC.
„Saga Kai var mjög sorgleg og minnti marga á sögu bangsans Paddington þar sem hann fannst yfirgefinn á lestarstöð með ferðatösku.“
Grant er viss um að Kai muni lifa góðu lífi með nýja eiganda sínum.
Saga hundsins Kai að skýrast
Margir vilja taka að sér yfirgefna hundinn Kai
Hundur yfirgefinn með eigur sínar í tösku