Samsæriskenning gengur aftur

Blíðviðri í Reykjavík. Mælingar á hitastigi eru aðlagaðar til að …
Blíðviðri í Reykjavík. Mælingar á hitastigi eru aðlagaðar til að útrýma misfærslum sem geta t.d. átt sér stað þegar veðurstöðvar eru fluttar til á milli staða, eins og gerðist í Reykjavík. mbl.is/Ómar Óskarsson

Villa í sjálf­virk­um leiðrétt­ing­um á hita­stigs­mæl­ing­um frá Reykja­vík í gagna­grunni banda­rísku veður­stof­unn­ar var af­greidd fyr­ir löngu, að sögn Hall­dórs Björns­son­ar, lofts­lags­fræðings hjá Veður­stofu Íslands, sem átt­ar sig ekki á hvers vegna sam­særis­kenn­ing­ar um fölsuð gögn skjóti aft­ur upp koll­in­um.

Árið 2012 var á bent á að töl­ur fyr­ir Reykja­vík í GHCN-gagna­grunni banda­rísku veður­stof­unn­ar yfir hita­stig í heim­in­um væru brenglaðar. Ástæða þess var sú að gagna­grunn­ur­inn not­ar sjálf­virk­ar reikniaðferðir til að jafna út mis­færsl­ur í mæliröðum yfir langt tíma­bil sem geta verið til­komn­ar vegna flutn­ings á veður­stöðvum, eins og í til­felli Reykja­vík­ur­stöðvar­inn­ar.

Þeir sem ef­ast um að hnatt­ræn hlýn­un eigi sér stað notuðu þetta mis­ræmi í gögn­um sem rök­stuðning fyr­ir því að töl­ur lofts­lags­vís­inda­manna væru falsaðar til að sýna fram á meiri hlýn­un en hefði í raun átt sér stað. Sú sam­særis­kenn­ing hef­ur nú aft­ur skotið upp koll­in­um. Ein mest lesna grein­in á vef breska blaðsins The Tel­egraph á dög­un­um var skoðanap­ist­ill blaðamanns­ins Christoph­ers Booker þar sem hann held­ur því fram að „fikt“ í hita­stigs­mæl­ing­um sé stærsta hneykslis­mál vís­inda­sög­unn­ar.

Þar er meðal ann­ars vitnað til Trausta Jóns­son­ar, veður­fræðings, sem var sagður hafa verið undr­andi á bjög­un GHNC á hita­stigs­mæl­ing­um í Reykja­vík.

Aðlöguðu gögn­in drógu úr hlýn­un­inni

„Við af­greidd­um þetta fyr­ir svo löngu síðan að við erum svo­lítið hissa á að þetta sé aft­ur að gjósa upp núna. Þessi aðferðafræði sem GHNC not­ar skil­ar ekki góðri niður­stöðu fyr­ir Reykja­vík. Hún er eins fyr­ir all­ar stöðvar í heim­in­um og hún virk­ar langoft­ast en hún klikk­ar hins veg­ar illa á nokkr­um stöðum. Reykja­vík er einn þeirra stöðva,“ seg­ir Hall­dór Björns­son sem er verk­efn­is­stjóri lofts­lags­rann­sókna hjá Veður­stof­unni.

Slík­ar „lag­fær­ing­ar“ á hita­stigs­mæl­ing­um séu ekki óeðli­leg­ar, enda geri Veður­stof­an sjálf aðlag­an­ir á mæl­ing­um sín­um. Hann bend­ir á að aðrar veður­stöðvar hafi ekki farið eins út úr sjálf­virku aðferð GHNC og að hún hafi ekki haft áhrif á heild­ar­hlýn­un­ina. Hall­dór tel­ur að töl­um GHNC hafi ekki verið breytt ennþá enda sé al­góriþman­um sem beitt er ekki breytt fyr­ir hverja og eina veður­stöð held­ur aðeins fyr­ir all­ar veður­stöðvarn­ar í einu á nokk­urra ára fresti.

Þá fer því fjarri að bjög­un­in sem verður á ein­stök­um veður­at­hug­un­ar­stöðvum eins og Reykja­vík hafi áhrif á meðaltals­hita á jörðinni og valdi því að menn of­meti hnatt­ræna hlýn­un.

„Þetta á ekki að skekkja heimsmeðal­töl svo neinu nemi. Það er al­veg sama hvaða aðferð menn beita til að laga mis­fell­ur, að hún klikk­ar í ein­hverj­um til­vik­um. Það er mjög mik­ill minni­hluti stöðva“ seg­ir Hall­dór.

Þau áhrif sem aðlagaðar töl­ur hafa á þróun meðal­hita eru þó held­ur í hina átt­ina miðað við sam­særis­kenn­ing­ar um föls­un á hlýn­un jarðar. Hall­dór seg­ir að aðlög­un BEST-verk­efn­is Berkeley-há­skóla hafi þannig áhrif á hnatt­ræn meðal­töl fyr­ir 1940.

„Þessi áhrif eru þá þannig að sam­kvæmt hráu gögn­un­um þá hefði hlýnað meira frá því á síðustu öld en með aðlöguðu gögn­un­um. Aðlöguðu gögn­in draga úr hlýn­un á síðustu öld, þvert á það sem þeir sem telja þetta skan­dal vilja meina. Þeir halda því sí­fellt fram að þess­ar aðlag­an­ir auki á hlýn­un­ina,“ seg­ir Hall­dór.

Aðlögun gagnagrunns bandarísku veðurstofunnar á hitastigsmælingum frá Reykjavík var ekki …
Aðlög­un gagna­grunns banda­rísku veður­stof­unn­ar á hita­stigs­mæl­ing­um frá Reykja­vík var ekki nógu góð. Þó ekki eins röng og mæl­ir­inn á mynd­inni. Friðrik Tryggva­son
mbl.is