Manni á fimmtugsaldri sem var handtekinn í Hafnarfirði í nótt eftir að hafa ráðist á son sinn sem er á unglingsaldri hefur verið sleppt. Að sögn Margeirs Sveinssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns, var manninum sleppt eftir skýrslutöku í morgun.
Samkvæmt upplýsingum frá Margeiri er málið enn í rannsókn, en það verður unnið í samvinnu við félagsþjónustu. Barnaverndaryfirvöld voru kölluð til vegna málsins í nótt enda um heimilisofbeldi að ræða gagnvart barni.
Maðurinn gisti fangageymslur í nótt en sá sem fyrir árásinni varð var fluttur með sjúkrabíl á slysadeild en hann var skorinn á höndum. Fleiri börn voru á heimilinu þegar líkamsárásin átti sér stað.
Frétt mbl.is: Réðst á son sinn