Jóhann Jóhannsson vann ekki Óskarsverðlaunin fyrir bestu kvikmyndatónlist ársins.
Sjálf Julie Andrews sá um að veita verðlaunin í kjölfar syrpu af lögum úr The Sound of Music sem Lady Gaga söng og var það Alexandre Desplat sem hlaut Óskarinn fyrir tónlistina í The Grand Budapest Hotel.
Jóhann var tilnefndur fyrir tónlistina í kvikmyndinni The Theory of Everything en hann vann Golden Globe verðlaunin fyrir verkið fyrr á þessu ári. Hann var sjötti Íslendingurinn til þess að hljóta Óskarstilnefningu en þjóðin þarf víst að bíða enn um sinn eftir Íslenskum Óskarsverðlaunum.
Jóhanni hafði verið spáð sigri af blaðamönnum tímaritsins Variety. Flokkur hans var sá 18. í röðinni í kvöld og var hans beðið með mikilli óþreyju af tísturum landsins sem voru fljótir að láta vonbrigði sín í ljós.
Í samtali við mbl.is í janúar sagði Jóhann það heiður að hafa verið tilnefndur. „Maður er rosalega stoltur af þessari mynd og að hafa fengið að taka þátt í þessu verkefni,“ sagði Jóhann og bætti við að það sé ánægjulegt að hafa fengið þessa viðurkenningu og tilnefningar.