Neil Patrick Harris, kynnir Óskarsverðlaunahátíðarinnar, hefur verið gagnrýndur fyrir að gefa í skyn að uppljóstrarinn Edward Snowden sé sekur um landráð en Snowden segist hafa hlegið að brandaranum.
Snowden er viðfangsefni heimildarmyndarinnar Citizenfour en sú hlaut Óskarinn í flokki heimildarmynda í nótt. Neil Patrick Harris, brá á (orða)leik eftir að aðstandendur kvikmyndarinnar höfðu veitt Óskarnum viðtöku og sagði að viðfang kvikmyndarinnar hefði ekki getað verið viðstaddur vegna einhverja landráða eða „some treason“ sem á ensku rímar við orðið „reason“ sem þýðir ástæða.
Blaðamanninum Glenn Greenwald, sem er önnur söguhetja myndarinnar, þótti brandarinn ósmekklegur en í þræði á Reddit sagði Snowden að hann hefði hlegið að gríninu. „Ég held að þetta hafi ekki verið meint sem pólitísk yfirlýsing en jafnvel ef svo var er það ekkert svo slæmt. Mín afstaða er sú að ef þú ert ekki tilbúinn til að vera kallaður nokkrum nöfnum til að hjálpa landinu þínu þá skiptir það þig ekki nægu máli,“ skrifaði Snowden.