Þrjár bestu Óskarsræðurnar

Common og John Legend kölluðu fram tár í augum viðstaddra.
Common og John Legend kölluðu fram tár í augum viðstaddra. AFP

Tilfinningarnar fá gjarnan að flæða á verðlaunahátíðum og er Óskarshátíðin þar engin undantekning. Margir verðlaunahafar kjósa að nýta sér tækifærið og ræða um þau málefni sem standa þeim næst. Þrír verðlaunahafar Óskarsins 2015 nýttu þetta tækifæri á sérlega eftirminnilegan hátt.

Patricia Arquette sem hlaut Óskarsverðlaunin fyrir hlutverk sitt í kvikmyndinni Boyhood skellti á sig lesgleraugunum og ræddi um jafnrétti í launamálum. Eftir að hafa þakkað öllum þeim sem komu að sigri hennar þakkaði hún skattborgurum og öllum þeim konum sem fætt hafa börn. „Við höfum barist fyrir jöfnum réttindum allra annarra. Nú er komið að okkur að njóta jafnréttis í launum fyrir fullt og allt og jafnréttis fyrir konur í Bandaríkjunum,“ sagði Arquette og uppskar dúndrandi lófatak.

 

Graham Moore mikið niðri fyrir þegar hann þakkaði öllum og Opruh fyrir Óskarsverðlaunin sem hann hlaut fyrir handritið að The Imitation Game. Eftir örlítið fát var þó eins og að vissa færðist yfir hann þegar hann greindi frá því að hann hefði reynt að taka eigið líf aðeins 16 ára gamall. „Og nú stend ég hér og ég vil nota þetta augnablik fyrir krakkann þarna úti sem finnst hún skrítin eða öðruvísi eða eins og hún passi ekki neinstaðar inn í. Jú, þú gerir það.... vertu áfram öðruvísi,“ sagði Moore.

Þeir Common og John Legend voru rétt sestir niður eftir að hafa flutt lagið „Glory“ úr kvikmyndinni Selmu þegar þeir þurftu að rísa á fætur og taka við Óskarnum fyrir besta lagið í kvikmynd. Þeir voru yfirvegaðir en komu skilaboðum sínum skýrt á framfæri.

„Við skrifuðum þetta lag um viðburði sem gerðust fyrir 50 árum síðan en við segjum að Selma sé að núið því baráttan fyrir réttlæti er að eiga sér stað núna. Við vitum að kosningarétturinn sem þau börðust fyrir fyrir 50 árum er í hættu í dag,“ sagði Legend.

 „Það eru fleiri svartir menn í fangelsum í dag en þrælar 1850. Þegar fólk gengur með laginu okkar viljum við segja að við erum með ykkur, við sjáum ykkur við elskum ykkur og gangið áfram.“

mbl.is