Beiðni tveggja ástralskra fíkniefnasmyglara um að dómur yfir þeim verði mildaður var hafnað fyrir rétti í Jakarta, höfuðborg Indónesíu, í dag.
Tvímenningarnir, Myuran Sukumaran og Andrew Chan, voru dæmdir til dauða árið 2006 fyrir að reyna að smygla heróíni úr landi árið 2005.
Þeir eru höfuðpaurar fíkniefnahrings sem nefnist Bali Nine en þeir hafa ítrekað reynt að fá dóminn mildaðan. Forseti Indónesíu hafði meðal annars áður hafnað beiðni þeirra um að vera ekki teknir af lífi.
Allt bendir því til þess að þeir verði leiddir fyrir aftökusveit innan fárra daga ásamt níu öðrum, fjórum Indónesum og fimm útlendingum.