Hjúkrunarheimili eru yfirfull, langir biðlistar eru eftir plássi á þeim og það hefur m.a. þau áhrif að ekki er hægt að útskrifa sjúklinga af Landspítalanum.
Nú bíða 70 manns á spítalanum eftir því að fá pláss á hjúkrunarheimilum, samkvæmt upplýsingum sem fengust frá spítalanum.
Mikið álag hefur verið að undanförnu á bráðamóttöku spítalans, einkum í síðustu viku. Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, þakkaði starfsfólki Landspítalans fyrir vel unnin störf í síðasta föstudagspistli sínum sem birtist á vefsíðu sjúkrahússins. Þar sagði hann þó Landspítalann ekki geta staðið vaktina óstuddur til lengdar.