Breski seðlabankinn hefur varað við því að tryggingafyrirtæki gætu tapað háum fjárhæðum á fjárfestingum sínum í kolefnaeldsneytisfyrirtækjum vegna aðgerða til að koma í veg fyrir verstu afleiðingar loftslagsbreytinga.
„Ein af af ríkjandi hættunum þessa stundina er sú að tryggingafyrirtæki sem fjárfesta í eignum gætu „strandað“ vegna stefnubreytinga sem takmarka notkun jarðefnaeldsneytis. Eftir því sem heimsbyggðin dregur meira úr kolefnalosun sinni, þá gætu fjárfestingar í jarðefnaeldsneyti, sem hefur verið vaxandi fjármálamarkaður á undanförnum áratugum, tekið stórt högg,“ sagði Paul Fisher, aðstoðarframkvæmdastjóri fjármálaeftirlits bankans, á fundi með fulltrúum tryggingafyrirtækja í gær. Það hefur meðal annars eftirlit með bönkum og tryggingafyrirtækjum og á að reyna að koma í veg fyrir kerfislæga áhættu fyrir hagkerfið.
Áður hefur Mark Carney, seðlabankastjóri, sagt að ekki sé hægt að brenna miklum meirihluta jarðefnaeldsneytisforða jarðarinnar ef menn ætla að halda hlýnun jarðar innan við 2°C miðað við fyrir iðnbyltingu. Það er yfirlýst markmið þjóða heims. Bankinn mun skila skýrslu til bresku ríkisstjórnarinnar síðar á þessu máli og fjármálalega áhættu vegna „kolefnabólu“.
Fjöldi rannsókna hefur sýnt að til að standast þetta markmið þurfi menn að skilja 80% af kolaforðanum, helming gasforðans og þriðjung olíuforðans eftir í jörðinni. Engu að síður eyddu fyrirtæki um 670 milljörðum dollara í að leita kolefnaeldsneytis á árinu 2013. Sú fjárfesting gæti farið fyrir bý ef menn grípa til raunverulegra aðgerða gegn loftslagsbreytingum og draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda sem hlýst af bruna jarðefnaeldsneytis.
Frétt The Guardian af viðvörunarorðum breska seðlabankans