Dauðadæmdir fyrir aftökusveit?

Hér sést aftökusveit nasista taka pólska fanga af lífi árið …
Hér sést aftökusveit nasista taka pólska fanga af lífi árið 1939 Af vef Wikipedia

Þingmenn á ríkisþinginu í Utah hafa lagt fram frumvarp til laga um að heimila aftökusveitir að nýju við aftökur þegar ekki er hægt að útvega lyf til þess að taka fanga af lífi.

Mikill skortur er á banvænum lyfjum til þess að nota við aftökur í Bandaríkjunum. Ríki eins og Texas þrjóskast samt við en önnur ríki skoða nú aðrar aftökuaðferðir eftir að upp hafa komið mál þar sem það hefur tekið meira en klukkustund að drepa fanga sem hafa verið dæmdir til dauða.

Samkvæmt BBC er hins vegar óljóst hvort ríkisstjórinn í Utah, Gary Herbert, muni skrifa undir lögin verði þau samþykkt á þinginu en frumvarpið var lagt fram í gærkvöldi. 

Það er repúblikaninn Paul Ray sem lagði frumvarpið fram en hann segir að það sé mun hraðvirkara og mannúðlegra að beita aftökusveitum en að nota lyfjagjöf.

Andstæðingar frumvarpsins segja aftur á móti að aftökusveitir séu ómannúðleg aðferð sem beitt var á tímum villta vestursins. Ef frumvarpið nær fram að ganga verður Utah eina ríki Bandaríkjanna sem beitir þeirri aftökuaðferð.

Eftir að evrópskir lyfjaframleiðendur hættu að selja lyf sem notuð eru við aftökur til bandarískra fangelsismálayfirvalda hefur verið skortur á slíkum lyfjum víða í Bandaríkjunum. Eina ríkið sem enn á slík lyf er Texas en það magn dugar einungis fyrir tvær aftökur til viðbótar og gæti orðið uppurið innan tveggja vikna. 

Þingmenn í Arkansas skoða nú hvort heimila eigi aftökur með aftökusveitum en í Wyoming var frumvarpi þar að lútandi hafnað. Í Oklahoma er nú rætt um að taka gasklefa í notkun.

Ronnie Lee Gardner, dæmdur morðingi sem skaut lögfræðing þegar hann reyndi að flýja úr fangelsi, er sá síðasti sem var tekinn af lífi af aftökusveit í Utah en það var árið 2010.

mbl.is