Einn banvænn skammtur eftir

pentobarbital
pentobarbital AF vefnum Change sem berst gegn dauðarefsingum

Fangelsismálayfirvöld í Texas eiga aðeins einn banvænan skammt eftir en ríkið er líkt og önnur ríki Bandaríkjanna sem taka fanga af lífi í vandræðum með að útvega sér banvæn lyf til að nota við aftökur. 

Fyrir sólarhring voru eftir tveir en nú er aðeins einn eftir þar sem Manuel Vasquez var tekinn af lífi í gærkvöldi. Hann er sá fjórði sem er tekinn af lífi í Texas þar sem af er ári. Sex aftökur eru á dagskrá í Texas næstu vikurnar.

Eftir að evrópsk lyfjafyrirtæki hættu að selja bandarískum ríkjum pentobarbital lyf til að nota við aftökur hefur skortur verið á slíkum lyfjum og rætt um ýmsa aðra möguleika til þess að  taka fólk af lífi. Gasklefar og aftökusveitir njóta þar mestrar hylli meðal þingmanna. 

Vasquez, 46 ára liðsmaður í glæpagengi, var dæmdur til dauða fyrir að  kyrkja konu í  San Antonio, samkvæmt frétt BBC. Það tók hann sautján mínútur að deyja frá því byrjað var að dæla lyfinu í æðar hans, samkvæmt BBC.

Systir fórnarlambsins, Juanita Ybarra 51 árs, var meðal þeirra sem horfði á aftökuna í gegnum gler í gærkvöldi. Vasquez drap Ybarra árið 1998 vegna fíkniefnaskuldar. Vasquez var þekktur ofbeldismaður og liðsmaður í glæpagengi í San Antonio. Hann, ásamt tveimur öðrum, fór á gistiheimili þar sem Ybarra hélt til ásamt kærasta. Sá lifði árásina af og gat veitt upplýsingar um árásarmennina. Hinir árásarmennirnir voru dæmdir í 7 ára og 35 ára fangelsi. 

Vasquez sagði skömmu fyrir andlátið að hann elskaði fjölskyldu sína og vini og þakkaði guði fyrir miskunnsemina og sagði að lokum: í Jesú nafni ég bið, ég er tilbúinn.

Í næstu viku á að taka Randall Mays af lífi en hann skaut tvo lögreglumenn til bana árið 2007.

mbl.is