Fjölskylda manns sem var dæmdur til dauða á unglingsaldri í Pakistan biður yfirvöld um að sýna miskunn en taka á hann af lífi í næstu viku.
Shafqat Hussain var fimmtán ára gamall þegar hann var dæmdur til dauða fyrir að hafa myrt sjö ára gamlan dreng árið 2004. Dómstóll, sem dæmir í hryðjuverkamálum, í Karachi tilkynnti í gær að Hussain yrði hengdur þann 19. mars.
Mannréttindasamtök hafa gagnrýnt aftökuna harðlega og segja að Hussain hafi ekki fengið réttláta meðferð fyrir dómstólum á sínum tíma. Móður hans, Makhni Begum, sem síðast sá son sinn árið 2005 segir í viðtali við AFP að Hussain sé saklaus.
Hún segir í viðtalinu að vonir hennar hafi orðið að engu og hún hafi enga trú á réttarfarinu í Pakistan. „Það var mín síðasta ósk að hitta son minn en nú er þessi von að verða að engu. Nú bið ég guð um að þyrma lífi hans.“
Hussain starfaði sem vaktmaður í Karachi árið 2004 þegar sjö ára drengur hvarf sporlaust í nágrenninu. Nokkrum dögum síðar var hringt úr síma Hussains í fjölskylduna þar sem farið var fram á lausnarfé, 1,2 milljónir króna, að því er segir í skjölum málsins. Hussain var handtekinn í kjölfarið og játaði við fyrstu yfirheyrslu að hafa rænt drengnum og myrt en lík piltsins, Umair, fannst í plastpoka í læk. Síðar dró Hussain játninguna til baka og sagði að hún hafi verið þvinguð fram en þrátt fyrir það var málið tekið fyrir hryðjuverkadómstól sem dæmdi hann til dauða.
Móðir hans, Begum segir að Hussain sé yngstur sjö systkina hafi hlaupist að heiman til þess að flýja fátækt fjölskyldunnar í þeirri von að eignast betra líf.
Það var síðan ættingi sem hafði samband við fjölskylduna og lét vita að Hussain væri í fangelsi fyrir morð.