Fyrrum utanríkisráðherra í ríkisstjórn Ronalds Reagan, George P. Shultz, segir að Bandaríkjamenn ættu að fara að fordæmi Reagan þegar kemur að loftslagsmálum. Leggur hann til að ríkið fjárfesti í þróun á nýjum orkugjöfum og taki upp kolefnisgjald. Þeir sem afneiti loftslagsvísindum muni fara illa út úr raunveruleikanum.
Þetta skrifar Shultz í grein í blaðið The Washington Post. Hún hefur vakið athygli þar sem að fulltrúar Repúblikanaflokksins, sem Shultz tilheyrir, hafa verið háværir í andstöðu sinni við aðgerðir í loftslagsmálum og afneitun á vísindum þeim tengdum. Þar rekur hann meðal annars hvernig hafís á norðurskautinu hefur verið að hverfa æ hraðar ásamt öðrum staðreyndum hlýnandi jarðar.
„Þetta eru hreinar og klárar athuganir þannig að ég álykta að jörðin sé að hlýna og að koltvísýringur hafi eitthvað með það að gera. Þeir sem halda öðru fram munu á endanum verða rændir af raunveruleikanum,“ skrifar Shultz.
Til að bregðast við vandamálinu vill Shultz að menn fari að fordæmi Reagan forseta. Hann hafi fengið þá sem efuðust um að menn væru að valda því að sístækkandi gat myndaðist á ósonlagið til að vinna að lausn á því. Það hafi á endanum orðið til þess að Montreal-bókunin var samþykkt sem þyki best heppnaði alþjóðasamningur á sviði umhverfisverndar sem gerður hefur verið.
„Við vitum vel að þeir eru til sem efast um vandamálin sem loftslagsbreytingar valda. Ef þessir efasemdamenn hafa hins vegar rangt fyrir sér þá eru gögnin klár um að afleiðingarnar, þó þær verði fjölbreyttar, verði aðallega slæmar, sumar þeirra skelfilegar. Af hverju þá ekki að fylgja fordæmi Reagan og taka út tryggingu?“ skrifar fyrrverandi utanríkisráðherrann.
Leggur hann til að fjárfest verði í þróun og rannsóknum á öðrum orkugjöfum. Taki ríkið frumkvæðið muni það hvetja einkaaðila til að leggja sitt af mörkum. Þá vill hann að jafna stöðu orkukosta þannig að þeir greiði kostnaðinn fyrir samfélagið sem valdi honum, sérstaklega hvað varðar koltvísýringslosun. Stigvaxandi kolefnisgjald sem skilað yrði beint til skattborgara er lausnin sem Shultz sér fyrir sér svo að stjórnmálamenn freistist ekki til að eyða fénu í gæluverkefni.
„Þetta er mín tillaga. Taktu út tryggingu áður en þú verður rændur af raunveruleikanum. Það er aðferð Reagan,“ skrifar Shultz.
Grein George P. Shultz, fv. utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í The Washington Post