Heildarlosun koltvísýrings hélst óbreytt í heiminum á síðasta ári frá árinu áður, samkvæmt nýjum gögnum frá Alþjóðaorkumálastofnuninni (IEA). Þetta er í fyrsta skipti í 40 ár sem árleg losun koltvísýrings eykst ekki þótt hagvöxtur aukist.
Losunin nam 32 gígatonnum árið 2014 og var sú sama og árið áður. „Þetta eru bæði gleðileg tíðindi og mikilvæg,“ hefur fréttavefur breska ríkisútvarpsins eftir aðalhagfræðingi Alþjóðaorkumálastofnunarinnar, Fatih Birot. Hann kvaðst vona að þetta yrði til þess að skriður kæmist á samningaviðræður um aðgerðir til að stemma stigu við loftslagsbreytingum í heiminum.
„Það ætti alls ekki að nota þessar góðu fréttir sem afsökun til að hindra frekari aðgerðir,“ sagði Maria van der Hoeven, framkvæmdastjóri IEA.
Að sögn BBC rekja sérfræðingar þetta einkum til breytinga á orkunotkun í Kína og aðildarríkjum Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD. Þeir benda meðal annars á að dregið hefur úr notkun kola í Kína, auk þess sem Kínverjar hafa gert ráðstafanir til að minnka loftmengun, bæta orkunýtinguna og nýta endurnýjanlega orkugjafa.