Hengdu tólf fanga

Pakistönsk yfirvöld hengdu tólf fanga í dag, að sögn talsmanns innanríkisráðuneytisins. Forsætisráðherra landsins, Nawaz Sharif, aflétti banni við dauðarefsingum í kjölfar árásar talibana á skóla sem kostaði 132 börn og níu kennara lífið 17. desember.

Frá þeim tíma hafa 27 verið teknir af lífi í Pakistan, flestir þeirra skæruliðar. Í síðustu viku varð hins vegar ljóst að það stendur til að taka alla fanga af lífi sem eru á dauðadeildum landsins ef áfrýjun þeirra hefur verið hafnað.

Talsmaður innanríkisráðuneytisins segir að það séu ekki bara hryðjuverkamenn sem voru teknir af lífi í dag heldur einnig morðingjar og aðrir sem hafa framið alvarlega glæpi. Mannréttindasamtök segja að oft sé pottur brotinn í réttarkerfi landsins og menn dæmdir til dauða án fullnægjandi sannana um að þeir hafi framið glæpi sem þeir eru sakaðir um. Yfir átta þúsund Pakistanar eru nú á dauðadeild.

Á fimmtudag stendur til að taka Shafqat Hussain af lífi en að sögn lögfræðinga hans var Hussain fjórtán ára þegar hann var dæmdur til dauða. Hann var dæmdur fyrir mannrán og morð á barni sem hann játaði á sig eftir níu daga pyntingar, segja lögmenn hans.

mbl.is