Tappinn að losna úr Suðurskautslandinu

00:00
00:00

Rann­sókn­ir alþjóðlegs hóps vís­inda­manna benda til þess að Totten-jök­ull­inn á Suður­skautsland­inu sé að bráðna hraðar en menn töldu vegna þess að hlýr sjór kemst und­ir hann. Jök­ull­inn held­ur aft­ur mun stærri ís­breiðu sem gæti hækkað yf­ir­borð sjáv­ar um rúma þrjá metra, aðallega á norður­hveli jarðar.

Í fyrra komust menn að því að ís­inn á vest­ur­hluta Suður­skautsland­inu væri að bráðna hraðar en áður hafði verið áætlað vegna hnatt­rænn­ar hlýn­un­ar. Sú þróun gæti verið óaft­ur­kræf og gæti valdið því að yf­ir­borð sjáv­ar hækkaði um þrjá metra yfir næstu ára­tugi og ald­ir. Í nýrri grein sem birt­ist í Nature Geoscience eru lögð fram gögn sem benda til þess að það sama sé að ger­ast á aust­ur­hluta Suður­skauts­lands­ins. Fjallað er um rann­sókn­ina á vefsíðu banda­ríska dag­blaðsins The Washingt­on Post.

Hóp­ur vís­inda­manna frá Banda­ríkj­un­um, Bretlandi, Frakklandi og Ástr­al­íu gerði fjölda mæl­inga úr lofti yfir Totten-jökl­in­um á aust­ur­hluta Suður­skauts­lands­ins en það er sá hluti ís­breiðunn­ar sem þynn­ist hvað hraðast. Jök­ull­inn þekur svæði sem er 145 sinn­um 35 kíló­metr­ar að flat­ar­máli. Rúm­mál íss­ins sem bráðnar þar á hverju ári er hundrað sinn­um meira en rúm­mál hafn­ar­inn­ar í Syd­ney.

Hætt­an er að ef jök­ull­inn, sem teyg­ir sig frá land­inu út á hafið, bráðnar hratt þá muni mun stærri ís­breiðan á föstu landi skríða hraðar út í sjó. Jök­ull­inn virki eins og tappi sem haldi ísn­um fyr­ir aft­an á sín­um stað. Mæl­ing­ar vís­inda­mann­anna leiddu meðal ann­ars í ljós djúpa neðan­sjáv­ar­dali und­ir ísn­um þar sem menn töldu áður að væri fast land. Þar gæti hlýr sjór kom­ist und­ir og hraðað bráðnun jök­uls­ins.

Á sér stað yfir hundruð ára

Sú bráðnun sem hef­ur átt sér stað og mögu­leik­inn á að hlýtt vatn kom­ist und­ir jök­ul­inn gef­ur vís­inda­mönn­um til­efni til að ætla að hlýrri sjór sé or­sök hraðari bráðnun­ar á aust­ur­hluta Suður­skauts­lands­ins líkt og er að ger­ast á vest­ur­hlut­an­um. Vís­inda­menn­irn­ir gátu hins veg­ar ekki mælt hita­stig sjáv­ar­ins sem kemst und­ir jök­ul­inn með bein­um hætti og því er ekki hægt að full­yrða að það sé það sem er að ger­ast á þess­ari stundu, þó að önn­ur gögn bendi til þess.

Bráðni stór hluti íss­ins á Suður­skautsland­inu hef­ur það al­var­lega af­leiðing­ar. Hækk­un á yf­ir­borði sjáv­ar myndi ekki dreifast jafnt yfir jörðina vegna þyngd­arafls­ins. Suður­skautslandið er svo massa­mikið að það dreg­ur sjó­inn að sér. Ef slakn­ar á þyngd­ar­krafti Suður­skauts­lands­ins hörfar sjór­inn aft­ur til norður­hvels­ins og hækk­ar yf­ir­borð sjáv­ar meira þar.

Al­mennt er þó talið að þessi þróun eigi eft­ir að taka hundruð ára. Hætt­an er hins veg­ar að ekki sé leng­ur hægt að snúa henni við og að jörðin sem kom­andi kyn­slóðir manna koma til með að búa á verði ann­ar staður en sá sem menn þekkja nú.

Grein The Washingt­on Post um bráðnun á Suður­skautsland­inu 

Totten-jökullinn er sá hluti austurhluta Suðurskautslandsins sem bráðnar hvað hraðast …
Totten-jök­ull­inn er sá hluti aust­ur­hluta Suður­skauts­lands­ins sem bráðnar hvað hraðast um þess­ar mund­ir. AFP
Ísbrjótur á siglingu utan við Totten-jökulinn.
Ísbrjót­ur á sigl­ingu utan við Totten-jök­ul­inn. AFP
mbl.is

Bloggað um frétt­ina