Elín Lilja Ragnarsdóttir, Unnur Elva Arnardóttir, Kristín J. Rögnvaldsdóttir, Sigrún Lóa Sigurgeirsdóttir og Sigríður Ásta Hilmarsdóttir munu taka þátt í 10 vikna heilsuferðalagi Smartlands Mörtu Maríu og Hreyfingar.
Nokkur hundruð umsóknir bárust um að taka þátt í heilsuferðalaginu og urðu þessar fimm fyrir valinu.
Á þessum 10 vikum mun Anna Eiríksdóttir halda utan um hópinn og hjálpa þeim að komast í sitt besta form. Við munum fylgjast með stelpunum í vikulegum sjónvarpsþáttum en auk þess munu þær blogga um allt sem gerist á leiðinni.
Unnur Elva Arnardóttir er deildarstjóri hjá Símanum. Hún er 47 ára gömul og ætlar að koma sér í form til þess að geta hlaupið í maraþoni næsta sumar. Þegar hún er spurð að því hvað sé að hrjá hana sem hún vill laga nefnir hún það að minnka slenið og auk þess eigi hún erfitt með að vakna á morgnana. „Ég vil getað vaknað klukkan fimm alla morgna til að mæta í ræktina og svo vil ég auka úthaldið,“ segir hún.
Sigríður Ásta Hilmarsdóttir er 32 ára tveggja barna móðir í fæðingarorlofi en hún eignaðist tvö börn með stuttu millibili. Hún segist hafa skráð sig í átakið því hún þyngdist um 28 kg á meðgöngu og segist þurfa að taka sér tak. „Mig langar að komast í gott form svo ég geti tekist á við daginn með tvo litla fjörkálfa. Mig langar að borða hollari mat og hreyfa mig meira. Ég vil vera fyrirmynd fyrir dætur mínar og það er ekki mjög hvetjandi fyrir þær að eiga mömmu sem hefur ekki orku í að sinna þeim,“ segir hún.
Kristín J. Rögnvaldsdóttir er 43 ára gamall fasteignasali sem þráir að setja sig í forgrunn og hreyfinguna. Kristín segist hafa skráð sig í heilsuferðalagið vegna þess að hún hafi verið að þyngjast um sirka eitt kíló á ári síðustu átta árin. „Ég hef áhyggjur af því hvernig þetta endar,“ segir hún.
Elín Lilja Ragnarsdóttir er 44 ára sölumaður hjá Ásbirni Ólafssyni. Hún er gift tveggja barna móðir sem hefur verið að berjast við brjósklos sem hefur valdið því að hún hefur ekki getað hreyft sig eins og hún hefur þráð. Hún segist hafa skráð sig í heilsuferðalagið því hún hafi aldrei verið jafnþung og núna. „Ég hef ekki stundað neina hreyfingu síðustu ár fyrir utan stöku göngutúra og svo hef ég gert bakæfingar heima.“
Sigrún Lóa Sigurgeirsdóttir er 48 ára þjónustufulltrúi sem hefur látið sjálfa sig sitja á hakanum. Hún segist hafa verið of þung síðan hún man eftir sér og segist hafa farið í fyrstu megrunina 14 ára gömul. Síðan þá hafi holdafarið verið eins og jójó. Nú þráir hún að snúa við blaðinu og koma reglu á líf sitt. „Ég vil verða sátt við eigin líkama, sátt við lífið og tilveruna. Ég held að margt sem ég er ekki sátt við í dag sé vegna ofþyngdarinnar. Ég er þreytt, borða vitlaust og hreyfi mig lítið. Nú vil ég snúa við blaðinu,“ segir hún.
Smartland Mörtu Maríu vill þakka öllum þeim sem sóttu um. Því miður komust færri að en vildu.