„Svo gerist ekkert í kjölfarið“

Félagsfælni er eitt af því sem kveikja á viðvörunarljós hjá …
Félagsfælni er eitt af því sem kveikja á viðvörunarljós hjá foreldrum mbl.is/Golli

Þrátt fyr­ir að 75% þeirra sem eru með geðrask­an­ir séu greind fyr­ir 25 ára ald­ur þá vant­ar mikið upp á að þess­um hópi sé nægj­an­lega sinnt. Því það er ekki nóg að greina börn og ung­linga með geðrask­an­ir held­ur þarf að fylgja vand­an­um eft­ir. En stund­um er það þannig að það ger­ist ekk­ert í kjöl­farið. Þetta er meðal þess sem var rætt á fundi Náum átt­um, sam­starfs­hóps um fræðslu og for­varn­ar­mál í morg­un. Umræðuefni fund­ar­ins var geðheil­brigði barna.

Hvernig er fjár­magn­inu varið?

Þeir sem töluðu á fund­in­um voru sam­mála um að það væri al­var­leg­ur skort­ur á fjár­magni svo hægt væri að sinna börn­um sem glíma við geðrask­an­ir og ann­an vanda. Sú spurn­ing kom upp á fund­in­um um hversu mikl­um fjár­mun­um væri varið af hálfu hins op­in­bera í úrræði fyr­ir ungt fólk með geðrask­an­ir en þar sem það var eng­inn frá vel­ferðarráðuneyt­inu eða Sjúkra­trygg­ing­um Íslands á fund­in­um fékkst ekki svar við spurn­ing­unni.  

Bent var á að meðal þess sem gagn­rýnt er af barna­rétt­ar­nefnd Sam­einuðu þjóðanna á Íslandi er skort­ur á gagna­öfl­un um hvernig fjár­mun­um er ráðstafað. Eins hef­ur nefnd­in lýst yfir áhyggj­um yfir niður­skurði til mennta- og heil­brigðis­kerf­is­ins. Gera þurfi ráðstaf­an­ir til að mæta þörf­um barna með sérþarf­ir. Áhyggju­efni að niður­skurður komi niður á þeim.

Skort­ir upp á eft­ir­fylgni 

Fund­ar­gest­ir bentu á að þegar bið eft­ir grein­ingu væri lokið þá væri alls ekki búið að leysa vand­ann því mikið skorti á eft­ir­fylgni og framtíðar­sýn. Þegar grunn­skóla lýk­ur týn­ast krakk­arn­ir í kerf­inu en þeirra vanda er alls ekki lokið. Því er mik­il­vægt að fylgja þeim eft­ir allt til átján ára ald­urs, líkt og unnið er að í Breiðholti í sam­starfs­verk­efni þjón­ustumiðstöðvar Breiðholts og Fjöl­brauta­skól­ans í Breiðholti, seg­ir Há­kon Sig­ur­steins­son, sál­fræðing­ur hjá þjón­ustumiðstöð Breiðholts. 

400-500 mál ár­lega til Sjón­ar­hóls

Að sögn Maríu Hildiþórs­dótt­ur, fram­kvæmda­stjóra Sjón­ar­hóls, eru 400-450 mál skráð hjá Sjón­ar­hóli á hverju ári en Sjón­ar­hóll er ráðgjaf­armiðstöð fyr­ir for­eldra barna með sérþarf­ir og skipt­ir þar engu hver ald­ur barn­anna er. 

Milli 70-80% barna sem eru skráð hjá Sjón­ar­hóli eru með meira en eina grein­ingu og sum þeirra með fjöl­marg­ar grein­ing­ar. Á milli  60-70% for­eldra sem leita til Sjón­ar­hóls gera það vegna drengja en um fimmtán ára ald­ur breyt­ist þetta og hlut­fall kynj­anna jafn­ast.

Flest­ir með ADHD og á ein­hverfurófi

Flest­ir sem leita til Sjón­ar­hóls eiga börn með ADHD eða á ein­hverfurófi. Marg­ir hafa sam­band áður en grein­ing ligg­ur fyr­ir enda biðlist­arn­ir eft­ir grein­ingu oft lang­ir. Hún seg­ir að sam­kvæmt flokk­un­ar­kerfi Sjón­ar­hóls leiti ekki marg­ir til þeirra vegna barna með geðrask­an­ir en oft ligg­ur ekki sú grein­ing fyr­ir held­ur er geðrösk­un­in oft tengd öðrum rösk­un­um.

Hún seg­ir að er­ind­in séu marg­vís­leg en ein­hverj­ir for­eldr­ar kvarta und­an sam­skipt­um við skóla, skorti á stuðningsúr­ræðum og að ekki sé hlustað á þá þegar þeir reyna að fá aðstoð fyr­ir börn sín.

Vera vak­andi þegar viðvör­un­ar­ljós­in kvikna

Að sögn Maríu er ým­is­legt í fari og fram­komu barna sem eigi að kveikja fyrstu viðvör­un­ar­ljós­in hjá for­eldr­um og for­ráðamönn­um sem og skól­um. Til að mynda fé­lags­fælni barna, ít­rekuð veik­indi og kvíði. Hún bend­ir á að þrátt fyr­ir að al­gengt sé að leitað sé til Sjón­ar­hóls vegna barna með ADHD megi ekki gleyma því að þau geta verið ólík og komi frá ólík­um heim­il­um. 

En börn sem eiga við vanda að stríða leita oft á náðir tölv­unn­ar og hún verður þeirra tengiliður við um­hverfið. Sum þeirra finna síðan  tíma­bundna laust í vímu­efn­um og ein­hver þeirra enda í enn verri mál­um.

„Kvíðastelp­ur“ valda for­eldr­um áhyggj­um

En það eru ekki bara þeir sem eru með ADHD sem eru ólík­ur hóp­ur því það er það sama upp á ten­ingn­um hjá börn­um á ein­hverfurófi. Mörg þeirra, til að mynda þau sem eru með asp­er­ger­heil­kennið, fara auðveld­lega í gegn­um grunn­skóla og standa sig náms­lega vel. En þau eru vina­fá, oft „nör­d­ar“ sem njóta virðing­ar sem slík­ir en eru um leið ein­far­ar. 

Hún ræddi um ung­linga sem eru fé­lags­lega ein­angraðir, sem geta ekki lesið í fé­lags­leg sam­skipti og eiga jafn­vel í mikl­um skynj­un­ar­vanda þar sem öllu slær sam­an. Þetta eru oft börn­in sem detta fyrst út úr skóla­kerf­inu enda mörg í neyslu og það jafn­vel mik­illi neyslu. 

Svo eru það stúlk­ur sem ganga und­ir heit­inu „kvíðastelp­ur“ en það eru stelp­ur (yf­ir­leitt þó svo að það séu líka til kvíðastrák­ar) sem láta lítið fyr­ir sér fara. Þetta eru krakk­ar sem fer mjög lítið fyr­ir og eru oft­ast topp­nem­end­ur sem geng­ur vel í öllu. En á sama tíma eru þær  kvíðnar en sá kvíði birt­ist oft bara heima við. Eðli­lega veld­ur þetta for­eldr­um áhyggj­um og nauðsyn­legt að bregðast við áður en vand­inn eykst.

Sjón­ar­hóll reyn­ir að finna leið með for­eldr­um um hvað eigi að gera næst. Haft er sam­band við skóla og skóla­stjórn­end­ur og kerfið í kring. „Okk­ar hlut­verk er aðallega að styðja for­eldr­ana. Því þeirra upp­lif­un er sú að ekki hafi verið hlustað á þau en með aðkomu Sjón­ar­hóls fái þeirra rödd að heyr­ast,“ seg­ir María. 

5-10% með al­var­leg­ar geðrask­an­ir

Sigrún Daní­els­dótt­ir, verk­efn­is­stjóri geðrækt­ar hjá Land­læknisembætt­inu, seg­ir að al­mennt sé talið að 15-20% barna glími við væg til miðlungs al­var­leg vanda­mál og 5-10% al­var­leg­an geðræn­an vanda sem kall­ar á sér­hæfða þjón­ustu. Um 10% leik­skóla­barna eru með geðrask­an­ir og 8% barna er með ADHD.

Að sögn Sigrún­ar eiga allt að 20% barna erfitt og það sé spurn­ing um hvað þurfi að gera til þess að bregðast við. Góð geðheilsa er grund­völl­ur allra lífs­gæða. 

Sigrún seg­ir að helm­ing­ur geðrask­ana sé greind­ur fyr­ir fimmtán ára ald­ur og 75% geðrask­ana fyr­ir 25 ára ald­ur. Þar sem börn verja æsk­unni að mestu í skóla og á heim­il­inu sé mik­il­vægt að skapa fjöl­skyldu­væn­ar aðstæður í sam­fé­lag­inu þar sem fólk fær stuðning um leið og eitt­hvað bját­ar á. Mik­il­vægt sé að auka sam­veru og nánd milli barna og for­eldra og að gripið sé inn ef eitt­hvað bját­ar þar á og van­líðan tek­ur yfir. 

Hún bend­ir á að það sé allt of mik­il ein­föld­un að segja að geðheil­brigði sé eitt­hvað meðfætt. Því geðheil­brigði, líkt og lík­am­leg heilsa, bygg­ist á mörg­um sam­verk­andi þátt­um og það er hægt að kenna hegðun sem bæt­ir líðan barna og um leið að kenna þeim aðferðir til þess að láta sér líða bet­ur.

Upp­eld­is­hlut­verkið að fær­ast til skól­anna

Að sögn Sigrún­ar er það viður­kennt að efla eigi heilsu og vel­ferð barna á sama tíma og upp­eld­is­hlut­verkið er að miklu leyti komið inn í skól­ana. Það er að þeirra hlut­verk hef­ur verið víkkað út - er ekki leng­ur fræðsla held­ur einnig sá staður sem sinn­ir upp­eld­is­hlut­verk­inu ásamt fjöl­skyld­unni. 3-12% grunn­skóla­barna þarf á meðferð sér­fræðinga að halda. Aðstoð sem ekki er hlut­verk skól­ans. En nauðsyn­legt að það sé gott sam­starf milli þeirra sem þar koma að. En það ber að sama brunni - það skort­ir fjár­magn og úrræði í vel­ferð barna, seg­ir Sigrún og ít­rek­ar að hvergi sé jafn vel hlúð að börn­um og í skóla­kerf­inu sem í flest­um til­vik­um vilja gera allt sem hæg er. En það hafi því miður ekki verið hlúð nægj­an­lega að skóla­kerf­inu og heim­il­un­um varðandi geðheil­brigði barna. 

Haft sam­band við for­eldra barna sem vilja deyja

Há­kon Sig­ur­steins­son, sál­fræðing­ur hjá þjón­ustumiðstöð Breiðholts, seg­ir að sveit­ar­fé­lög­in hafi van­rækt hlut­verk sitt með til­liti til geðheil­brigðis og sér­tækra for­varna fyr­ir börn og ung­menni.

Hjá þjón­ustumiðstöð Breiðholts hef­ur verið gerð skimun meðal ní­undu bekk­inga í sex ár, yfir 1.200 börn hafa fengið slíka skimun. Að sögn Hákons er haft sam­band við for­eldra ef eitt­hvað bját­ar á. Til að mynda er strax hringt í for­eldra þeirra barna sem segj­ast vilja deyja. Um 15% þeirra sem fá skimun koma það illa út að haft er sam­band við for­eldra þeirra og þeir boðaðir í viðtal.

Hann seg­ir að það sé ákveðin stíg­andi í kvíðaein­kenn­um ung­menn­anna en ákveðnum toppi hafi verið náð 2012 og öðrum 2014. Í nóv­em­ber sl. hafi komið stór topp­ur í þung­lynd­is­mæl­ingu ung­menna í Breiðholti. Há­kon seg­ir það lyk­il­atriði að veita skól­um og heim­il­um aðstoð. Það sé ekki nóg að setja nýj­ar reglu­gerðir ef þeim fylgi ekki fjár­magn. „Þetta ger­ist ekki án fjár­magns,“ seg­ir Há­kon.

Það er mikilvægt að heimilin og skólar vinni saman þegar …
Það er mik­il­vægt að heim­il­in og skól­ar vinni sam­an þegar kem­ur að vanda­mál­um tengd­um geðheil­brigði barna en fjár­magnið verður að vera til staðar ann­ars ger­ist ekki neitt. mbl.is/​Krist­inn Ingvars­son
Fjölmargir foreldrar leita til Sjónarhóls vegna vanda barna.
Fjöl­marg­ir for­eldr­ar leita til Sjón­ar­hóls vegna vanda barna. mbl.is/​Golli
Kristján Kristjáns­son
Uppeldishlutverkið er smátt og smátt að færast til skólanna.
Upp­eld­is­hlut­verkið er smátt og smátt að fær­ast til skól­anna. mbl.is/Þ​órður Arn­ar Þórðar­son
Hvergi er jafn vel hlúð að börnum og í skólunum, …
Hvergi er jafn vel hlúð að börn­um og í skól­un­um, seg­ir sér­fræðing­ur hjá land­læknisembætt­inu. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son
mbl.is