Frestuðu aftökunni

Shafqat Hussain
Shafqat Hussain AFP

Pakistönsk yfirvöld hafa ákveðið að fresta aftöku manns sem taka átti af lífi í dag. Verður mál hans rannsakað en samkvæmt lögfræðingi Shafqat Hussains þá var hann fjórtán ára er hann var dæmdur til dauða.

Bannað er með lögum í Pakistan að dæma ungmenni til dauða. Lögmaður Hussains segir að skjólstæðingur sinn hafi játað morð á sig eftir pyntingar í nokkra daga en hann var dæmdur til dauða vegna ráns á barni og að hafa myrt það.

Maya Foa, sem stýrir aðgerðum samtakanna Reprieve varðandi dauðarefsingar, fagnar fréttunum mjög en segir um leið að það sé ömurlegt til þess að vita að það hafi þurft þrýsting almennings svo mál Hussains yrði endurskoðað. Tilkynning innanríkisráðherra var send út einungis nokkrum klukkustundum áður en aftakan átti að fara fram.

Móðir Shafqat Hussain, Makhani Begum, segir son sinn saklausan og biðlar til yfirvalda um að lífi hans verði þyrmt. 

Frétt BBC

Hengdu tólf fanga

Foreldrar Shafqat Hussain,
Foreldrar Shafqat Hussain, AFP
AFP
mbl.is