RIFF-hátíðin aftur í Kópavogi

Karen Halldórsdóttir, formaður lista- og menningarráðs Kópavogsbæjar.
Karen Halldórsdóttir, formaður lista- og menningarráðs Kópavogsbæjar. Ljósmynd/Eva Björk Ægisdóttir

Karen Halldórsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður lista- og menningarráðs Kópavogs, segir Kópavogsbæ hlakka mikið til að starfa áfram með RIFF en Kópavogsbær hefur ákveðið að styrkja RIFF kvikmyndahátíðina í ár, annað árið í röð.

Karen segir hátíðina hafa heppnast einstaklega vel í fyrra. „Dagskráin var fjölbreytt og skemmtileg, og viðburðir á borð við kvikmyndatónleika í Salnum voru mjög vel sóttir,“ segir hún.

Lista- og menningarráð Kópavogsbæjar ákvað á dögunum að styrkja hátíðina um 3,5 milljónir króna og verða sérviðburðir, eins og í fyrra, í Gerðarsafni, Salnum í Kópavogi, Bókasafni Kópavogs og í Molanum, sem er ungmennahús bæjarins.

Eins er stefnt að því að ungmenni í grunnskólum Kópavogs fái leiðsögn og kennslu í kvikmyndagerð, líkt og í fyrra þegar námskeiði í stuttmyndagerð lauk með frumsýningu stuttmynda í Smárabíói.

Hrönn Marinósdóttir, stjórnandi RIFF, lýsir yfir mikilli ánægju með samstarf Kópavogsbæjar og RIFF. „Það var ánægjulegt hvað íbúar Kópavogs tóku vel í dagskrá RIFF í fyrra. Það hvetur okkur áfram í okkar starfi og við erum afar spennt fyrir því að vinna með menningarhúsum og skólum Kópavogs að nýju. Nú erum við að undirbúa komandi hátíð og hlökkum til að kynna dagskrána þegar nær dregur,“ segir Hrönn.


Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík er einn af stærstu og fjölbreyttustu menningarviðburðum á Íslandi. RIFF leggur áherslu á unga kvikmyndagerðarmenn og framsækna kvikmyndagerð. Hátíðin í ár er sú tólfta í röðinni og mun hún standa frá 24. september til 4. október.

Frá frumsýningu stuttmynda í Smárabíói á RIFF-kvikmyndahátíðinni í Kópavogi í …
Frá frumsýningu stuttmynda í Smárabíói á RIFF-kvikmyndahátíðinni í Kópavogi í fyrra. Ómar Óskarsson
mbl.is