Barack Obama Bandaríkjaforseti þykir ekki nóg að prédika fyrir öðrum um nauðsyn þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda Hefur hann ákveðið að stjórnvöld líti sér nær.
Þess vegna mun Obama síðar í dag undirrita tilskipun sem felur í sér að Bandaríkjastjórn dragi sjálf úr losun gróðurhúsalofttegunda sem talið er eiga sök á hlýnun jarðar.
Liggur ekki nánar fyrir hendi til hvaða ráðstafana einstök ráðuneyti þurfa að grípa til að draga úr losun. Hins vegar mun fjöldi stórra bandarískra fyrirtækja, sem eiga jafnan í umtalsverðum viðskiptum við stjórnvöld, taka þátt og skuldbinda sig til að lækka eigin losun.
Obama er sagður með þessu vonast til að aðgerðir Bandaríkjastjórnar geti orðið öðrum ríkisstjórnum fordæmi. Á næstu vikum er búist við að stjórnvöld í Washintgon og fleiri löndum kynni framlag sitt til nýs loftslagssáttmála sem endanlega verður gengið frá á loftslagsráðstefnunni í París í desember nk.