Þriðji hver kjósandi borgaraflokkanna í Danmörku styðja það að dauðarefsing verði tekin upp að nýju í landinu samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar. Allir stjórnmálaflokkar landsins eru því hins vegar andsnúnir.
Þetta kemur fram á fréttavef dönsku sjónvarpsstöðvarinnar TV2 í dag en skoðanakönnunin var gerð fyrir sjónvarpsstöðina og danska dagblaðið Politiken. Samkvæmt niðurstöðunum myndu 20% danskra kjósenda greiða atkvæði með því að taka upp dauðarefsingu ef þjóðaratkvæði yrði haldið um málið í dag. Einkum þeir kjósendur sem greiddu borgaraflokkunum atkvæði sitt í síðustu þingkosningum. Þetta á sérstaklega við um kjósendur Danska þjóðarflokksins. Sá fyrirvari er þó gerður að skekkjumörk séu talsvert mikil vegna lítils úrtaks.
Dauðarefsing var afnumin í Danmörku með lögum árið 1951.