Olíuverð lækkar í takt við kjarnorkufund

Karlarnir sem ræða kjarorkumál í Lausanne
Karlarnir sem ræða kjarorkumál í Lausanne AFP

Olíuverð lækkaði í Asíu í morgun og er það rakið til spákaupmennsku í tengslum við fund utanríkisráðherra sex ríkja og Írans í Lausanne í Sviss þar sem reynt er til þrautar að ná samkomulagi varðandi kjarnorkumál Írana.

Bandaríska hráolían West Texas Intermediate lækkaði um 67 sent og kostar tunnan nú 48,01 Bandaríkjadal á meðan Brent Norðursjávarolía lækkaði um 41 sent og kostar nú 55,88 Bandaríkjadali tunnan.

Segja sérfræðingar að olíuverðið sveiflist í takt við vonir og væntingar um kjarnorkuvopnasamkomulag við Íran í dag. Utanríkisráðherrarnir hafa gefið sér frest til miðnættis til að ná samkomulagi en ekki hefur tekist að hnýta alla lausa enda. 

„Það eru maraþon fundir haldir um allt á sama tíma. Það eru nokkur atriði sem ekki hafa verið leyst enn þá og það eru mikilvæg atriði,“ segir samningamaður Írana í Lausanne í Sviss.

Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, John Kerry, hefur verið í Lausanne síðan á miðvikudag en hann og íranskur starfsbróðir hans, Mohammad Javad Zarif, hafa setið á fundum nánast linnulaust. 

Kerry segir í samtali við CNN að ekki hafi enn tekist að leysa nokkur erfið og viðkvæm atriði. Hann sagði seint í gærkvöldi að unnið yrði fram á nótt og setið verði við samningaborðið í allan dag.

Ef Íranar draga úr kjarnorkuáætlunum sínum verður komið til móts við þá með því að aflétta refsiaðgerðum. Enn er óleyst hvernig refsiaðgerðum á Íran verði aflétt og hvernig kjarnorkurannsóknum þeirra og þróun verði háttað síðar meir.

mbl.is