„Gerir heiminn öruggari“

Barack Obama, forseti, ræðir við fréttamenn fyrir utan Hvíta húsið.
Barack Obama, forseti, ræðir við fréttamenn fyrir utan Hvíta húsið. AFP

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, lýsti yfir ánægju sinni með samkomulag sem náðist við Írana í dag um kjarnorkuáætlun þeirra. Hann sé sannfærður um að það muni gera heiminn öruggari. Hann varaði þó við því að ef Íranar reyna að svíkjast um þá muni heimsbyggðin vita af því.

Tilkynnt var um að samkomulag hafi náðst um lykilþætti sem varða varanlegt samkomulag á milli Írana og sex heimsvelda fyrr í dag. Samkomulagið gengur út á að kjarnorkuáætlun Írana verði sett takmörk en á móti verði refsiaðgerðum gegn þeim aflétt. Samkvæmt fyrstu fréttum felur samkomulagið í sér að Íranar fækki skilvindum sem notaðar eru til vinnslu úrans verulega og refsiaðgerðum gegn þeim verði aflétt þegar Sameinuðu þjóðirnar hafa staðfest að þeir hafi uppfyllt skilmála samkomulagsins. Það eigi að gilda til tíu ára.

„Ég er sannfærður um að ef þetta rammasamkomulag mun leiða til endanlegs og ítarlegs samnings þá muni það gera landið okkar, bandamenn okkar, heiminn okkar öruggari,“ sagði Obama við fjölmiðlamenn við Hvíta húsið í kvöld en stefnt er að því að klára endanlegt og formlegt samkomulag fyrir 30. júní.

Þá varaði forsetinn bandaríska þingmenn við því að vera Þrándur í götu samkomulagsins. Stöðvi þingið samkomulagið án þess að fyrir því liggi álit sérfræðinga eða annar vænlegur kostur þá verði Bandaríkjunum kennt um klúður í ríkiserindrekstri.

mbl.is