Ráðherra leyniþjónustumála í ríkisstjórn Ísraels, Yuval Steinitz, sagði í dag að ekkert væri útilokað af hálfu ísraelskra stjórnvalda vegna kjarnorkuáætlunar Írans. Þar á meðal að gripið yrði til hernaðar gegn landinu stafi Ísrael ógn af áætluninni.
Viðræður hafa staðið yfir að undanförnu um kjarnorkuáætlun Írans í Sviss á milli fulltrúa íranskra stjórnvalda og sex helstu iðnvelda heims. Steinitz sagði að reynt yrði til hins ítrasta að takast á við mögulega ógn frá Íran í gegnum diplómatískar leiðir en ef ísraelsk stjórnvöld ættu ekki annan kost en að beita hervaldi yrði það gert.