Vonir standa til þess að samkomulag náist í dag í viðræðum um kjarnorkuáætlun Írans sem standa yfir í Sviss. Samningamenn funduðu í alla nótt samkvæmt frétt AFP.
Fram kemur í fréttinni að utanríkisráðherrar Bandaríkjanna og Írans, John Kerry og Mohammad Javad Zarif, hafi rætt í þaula þann ágreining sem enn er fyrir hendi varðandi mögulegt samkomulag. Zarif sagði við fjölmiðla í morgun að verulegur árangur hafi náðst í viðræðunum en endanlegt samkomulag lægi þó ekki fyrir enn.