Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, segir samkomulagið um kjarnorkuáætlun Írans sé ógn við Ísrael. Það auðveldi Írönum að koma sér upp kjarnorkuvopnum og auki þar með hættuna á að styrjöld brjótist út.
Hann ræddi símleiðis við Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, seint í gær og lýsti þá megnri óánægju með samninginn. Telur forsætisráðherrann að stórveldin sex eigi að setjast aftur að samningsborðinu þangað til að betri samningur náist.
Tilkynnt var um að samkomulag hafi náðst um lykilþætti sem varða varanlegt samkomulag á milli Írana og sex heimsvelda í gær. Samkomulagið gengur út á að kjarnorkuáætlun Írana verði sett takmörk en á móti verði refsiaðgerðum gegn þeim aflétt.
Obama lýsti í gær yfir ánægju sinni með samkomulagið. Hann sagðist sannfærður um að það myndi gera heiminn öruggari. Hann varaði þó við því að ef Íranar reyna að svíkjast um þá muni heimsbyggðin vita af því.
Frétt mbl.is: „Gerir heiminn öruggari“