Íranir fögnuðu á götum úti

Fjölmargir Íranir söfnuðust saman á götum Teherans, höfuðborgar landsins, í nótt til að fagna samkomulaginu sem náðist í gær við stórveldin sex um kjarnorkuáætlun Írans. Fagnaðarlætin voru mikil og var utanríkisráðherra landsins, Javad Zarif, hylltur sem þjóðhetja.

Eins og kunnugt er náðist samkomulag um lykilþætti sem varða varanlegt samkomulag á milli Írana og sex stórvelda síðdegis í gær. Sam­komu­lagið geng­ur út á að kjarn­orku­áætlun Írana verði sett tak­mörk en á móti verði refsiaðgerðum gegn þeim aflétt.

Á meðal þess sem kemur fram í drögum að samkomulaginu er krafa um að Íranir dragi úr auðgun úrans um tvo þriðju og að úranbirgðir landsins verði í algjöru lágmarki. Öll kjarnorkuvinnsla Írana verður framvegis undir eftirliti Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar.

Barack Obama, for­seti Banda­ríkj­anna, hefur lýst yfir ánægju sinni með sam­komu­lagið. Hann segist sann­færður um að það muni gera heim­inn ör­ugg­ari. Hann varaði þó við því að ef Íranar reyna að svíkj­ast um þá muni heims­byggðin vita af því.

Frétt mbl.is: „Gerir heiminn öruggari“

mbl.is