Dómstóll í Indónesíu hefur hafnað áfrýjun tveggja Ástrala sem taka á af lífi fyrir fíkniefnasmygl. Um er að ræða lokamöguleika þeirra á að áfrýja dauðadómnum og því orðið nánst fullvíst að þeir verði leiddir fyrir aftökusveit fljótlega.
Það er niðurstaða áfrýjunardómstólsins í Jakarta að hann hafi ekki heimild til þess að breyta ákvörðun forseta landsins, Joko Widodo, sem nýverið hafnaði beiðni tvímenninganna um náðun. Því standi fyrri ákvörðun dómstólsins um að mennirnir verði teknir af lífi.
Andrew Chan og Myuran Sukumaran, höfuðpaurar fíkniefnahóps sem nefnist Bali Nine, voru dæmdir til dauða árið 2006 fyrir að hafa reynt að smygla heróíni úr landi í Indónesíu.
Widodo hafnaði nýverið beiðni þeirra um forsetanáðun og verða þeir því væntanlega teknir af lífi fljótlega ásamt fleiri útlendingum frá Brasilíu, Frakklandi, Filippseyjum, Gana og Nígeríu. Mennirnir hafa allir verið dæmdir til dauða fyrir fíkniefnamál.
Til stóð að taka mennina af lífi í febrúar en vegna háværra mótmæla frá alþjóðasamfélaginu var ákveðið að láta endurskoða mál þeirra. Nýverið tapaði Filippseyingurinn sínu máli fyrir hæstarétti og mál Frakkans og Ganabúans eru enn fyrir dómi. Áströlsk stjórnvöld reyna nú allt til þess að reyna að koma í veg fyrir að mennirnir verði teknir af lífi og hið sama á við um frönsk yfirvöld sem og brasilísk.
Widodo hefur hins vegar boðað harðlínustefnu þegar kemur að brotum á fíkniefnalöggjöf landsins. Hann segir að fíkniefnasmyglarar fái enga miskunn í Indónesíu enda sé að skapast neyðarástand í landinu vegna aukinnar fíkniefnaneyslu meðal landsmanna.
Sex eiturlyfjasmyglarar voru teknir af lífi í Indónesíu í janúar, þar af voru fimm útlendingar.
Bali Nine, átta karlar og ein kona, hópurinn var handtekinn í apríl 2005 á flugvellinum á Bali og á hóteli á eyjunni eftir að indónesíska lögreglan fékk viðvörun um þau frá starfsbræðrum í Ástralíu. Hópurinn reyndi að smygla 8,3 kg af heróíni til Ástralíu.
Árið 2006 voru þeir Chan og Sukumaran dæmdir til dauða en það var niðurstaða dómara að þeir hafi verið höfuðpaurarnir á bak við smyglhringinn. Hins sjö voru dæmd í 20 ára fangelsi til lífstíðarfangelsi en einhver þeirra fengu dauðadómi breytt í lífstíðardóm við áfrýjun.
Þeir Chan og Sukumaran hafa ítrekað reynt að fá dauðadómnum hnekkt og segja að þeir séu aðrir menn en þeir voru fyrir tíu árum. Chan leiðbeinir föngum við lestur á Biblíunni og er með matreiðslukennslu í fangelsinu en Sukumaran er listamaður, samkvæmt BBC.