Léttust um páskana

Unnur Elva Arnardóttir.
Unnur Elva Arnardóttir. mbl.is/Styrmir Kári

„Nú eru páskarnir að baki, hátíð sem hefur farið í að borða góðan mat, páskaegg og eftirrétti, en ekki þessa páska, þar sem ég fékk þetta frábæra tækifæri með Hreyfingu og Mörtu ákvað ég að hafa þessa páska með allt öðru sniði. Ég mætti á æfingu á hverjum degi, borðaði ekkert páskaegg og matur var í hófi. Í stað þess að úða í mig rjómasósum og kartöflum fullum af smjöri, bjó ég til með steikunum girnileg sallöt með margvíslegum tegundum af grænmeti og setti síðan döðlur út á, þetta gerði það að verkum að löngun í sósur hvarf, einnig notaði ég sætar kartöflur sem fengu þann heiður að bakast í ofni. Ég passaði að eiga fullt af ávöxtum og góðar hnetur sem ég greip í þegar mig langaði í eitthvað. Það var eitt kvöld sem ég átti pínu bágt, en notaði þá ráðið hennar Ágústu í Hreyfingu, fékk mér popp og vatn,“ segir Unnur Elva Arnardóttir sem tekur þátt í heilsuferðalagi Smartlands Mörtu Maríu og Hreyfingar.

Þegar Unnur Elva steig á vigtina eftir páskana var hún léttari.

„Ég man bara ekki eftir því að hafa lést um páskana áður. Þetta er bara svo létt, þegar maður hefur þennan stuðning þá gengur þetta miklu betur. Pressan líka í að standa sig kemur kláralega sterk þarna inn, nýta þetta tækifæri til fulls.“

Unnur Elva segir að þrekið hafi aukist og hún sé farin að geta hlaupið lengra en áður.

„Tel ég því að þakka meðal annars frábæran vítamínpakka sem Inga Kristjánsdóttir, næringarþerapisti hjá Heilsuhúsinu, setti saman fyrir mig,“ segir Unnur Elva.

Kristín J. Rögnvaldsdóttir.
Kristín J. Rögnvaldsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg


Hún er þó ekki sú eina af þeim fimm sem kemur vel undan páskunum því Kristín J. Rögnvaldsdóttir er þremur kílóum léttari síðan átakið byrjaði.

„Eftir fyrstu vigtun var ég himinlifandi, 3 kíló farin. En það er ekki eina breytingin, líðan mín er mikið betri á allan hátt, ég sef betur og er orkumeiri yfir daginn. Björgunarhringurinn er að minnka og maginn, sem er svæðið sem ég gildna alltaf fyrst á. Þetta er líka svo gaman, ég hefði aldrei trúað því, það er bara svo mikill munur á því að æfa með þjálfara og fá svona mikinn stuðning. Einnig að hitta alltaf stelpurnar á æfingu, þær eru svo frábærar,“ segir Kristín.

„Fyrstu vikuna sá ég vigtina fara niður um nokkur hundruð grömm á hverjum degi, sem er ótrúlega mikil hvatning fyrir mig, ég er jú kona og við elskum það sennilega allflestar að léttast. En svo kom bakslag, í nokkra daga stóð ég í stað og þá komu þjálfararnir okkar sterkt inn, því þetta er víst nokkuð algengt, en einnig er mikil hætta á þessu tímabili að við gefumst bara upp. En þá er bara að halda áfram og vigtin er aftur farin að hreyfast niður á við. Ég hef ekki áður náð svona góðum árangri á svona stuttum tíma,“ segir hún.

mbl.is