Kvartað yfir lögreglumanninum 2013

Hér sést Walter Scott hlaupa undan lögreglumanninum sem skaut hann …
Hér sést Walter Scott hlaupa undan lögreglumanninum sem skaut hann svo átta skotum. Skjáskot af Youtube

Árið 2013 barst formleg kvörtun vegna lögreglumannsins Michaels Slager fyrir árás í starfi. Nú hefur hann verið ákærður fyrir morð eftir að hann skaut óvopnaðan mann til bana á dögunum. Mun lögregla nú rannsaka málið, en í atvikinu árið 2013 var lögreglumaðurinn, Michael Slager, ásakaður um að nota rafbyssu á Mario Givens.

Hefur Slager nú verið ákærður fyrir morðið á Walter Scott, en Slager skaut hann átta sinnum er Scott reyndi að hlaupa burt frá  lögreglumanninum. Hafa fjölmiðlar um allan heim birt myndskeið sem vitni að skotárásinni tók á farsíma. Segir sá sem tók myndbandið upp að mennirnir tveir hafi tekist á áður en Scott hljóp í burtu.

Slager hefur nú verið vikið úr starfi sínu í lögreglu Norður-Charleston í Suður-Karólínu-fylki Bandaríkjanna. Ef Slager verður fundinn sekur gæti hann þurft að sitja í fangelsi til æviloka. 

Árið 2013 kvartaði Mario Givens formlega yfir Slager. Heldur hann því fram að Slager hafi þröngvað sér inn í hús hans eftir að hann bankaði þar upp á.

„Komdu út eða ég skýt þig með rafbyssu,“ á Slager að hafa sagt. Segist Givens hafa sett hendur sínar upp og yfir höfuð sitt. Þrátt fyrir það skaut Slager hann með rafbyssunni í magann. 

Samkvæmt frétt BBC var Slager að rannsaka kvörtun gegn bróður Givens og á hann að hafa ruglast á Givens og bróður hans. Var ákæran felld niður og Slager hreinsaður af ásökununum í kjölfar lögreglurannsóknar. 

Að sögn talsmanns lögreglunnar í Norður-Charleston, Spencer Pryor, verður málið rannsakað að nýju. 

Lögreglumaðurinn Michael Slager er 33 ára.
Lögreglumaðurinn Michael Slager er 33 ára. AFP
mbl.is