Lögreglustjóri í Kaliforníu hefur nú sent tíu lögreglumenn í tímabundið leyfi eftir að myndband þar sem þeir sáust ganga í skrokk á manni komst í dreifingu. Maðurinn var á flótta undan lögreglu á hestbaki en fréttateymi sem var um borð í þyrlu náði myndskeiði af því er lögreglumennirnir réðust á flóttamanninn.
Í myndbandinu má sjá lögreglumennina kýla og sparka í manninn ítrekað sem lítur strax út fyrir að hafa gefist upp. Þetta kemur fram í frétt Sky News.
Maðurinn heitir Francis Pusok en hann var eftirlýstur vegna lögreglurannsóknar. Á fimmtudaginn flúði Pusok í bíl frá heimili sínu í bænum Apple Valley, sem er austan við Los Angeles.
Lögregla elti hann í næstum því þrjár klukkustundir en þá voru þeir komnir í hálenda eyðimörk. Þar skildi Pusok bílinn eftir og stal hesti frá hópi fólks. Myndskeið fréttateymisins sýnir Pusok á fleygiferð á hestinum þar til hann fellur af baki. Sést Pusok liggja á maganum með hendurnar upp í loft. Hópur lögreglumanna sést þá mæta á svæðið en þeir skiptust á að lemja og traðka á manninum. Árásin stóð yfir í að minnsta kosti tvær mínútur.
Lögreglustjórinn John McMahon hefur óskað eftir því að málið verði rannsakað. Hann hefur einnig sagt að myndskeiðið sé truflandi og að lögreglumennirnir fari ekki eftir settum reglum.
Lögreglumennirnir notuðu einnig rafbyssu á Pusok. Það var þó án árangurs vegna víðs klæðnaðar mannsins.
Í yfirlýsingu lögreglu kemur fram að Pusok var fluttur á sjúkrahús. Ekki komu fram upplýsingar um líðan hans.
Í frétt The Independent kemur fram að fjölskylda Pusok hafi ekki enn fengið upplýsingar um líðan mannsins. „Ég veit ekki enn hvernig honum líður,“ sagði kærasta og barnsmóðir Pusok, Jolene Bindner í gær. Þau eiga þrjú börn saman. „Ég veit ekki á hvaða sjúkrahúsi hann er, þeir hafa ekkert sagt mér. Hann gæti enn verið meðvitundarlaus, ég veit það ekki.“
Í gær kom það í ljós að Pusok hafi setið nokkrum sinnum í gæsluvarðhaldi fyrir ýmsa glæpi. Þar á meðal voru svik og varsla stolinna hluta.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu slösuðust þrír lögreglumenn við eftirförina. Tveir fundu fyrir ofþornun á meðan eitt slasaðist eftir að hesturinn sparkað í hann. Farið var með mennina þrjá á sjúkrahús.