Tveir námsmenn voru skotnir til bana í Bangladess en eldfimt ástand er í landinu eftir að Mohammad Kamaruzzaman, leiðtogi Jamaat-e-Islami, var tekinn af lífi á laugardag.
Að sögn lögreglu fannst lík 22 ára gamals námsmanns og stuðningsmanns flokksins í borginni Rajshahi í morgun en hann hafði verið skotinn fimm skotum.
Annar námsmaður lést í dag á sjúkrahúsi en hann varð fyrir skoti er til átaka kom á milli lögreglu og flokksmanna í Sirajganj héraði í gærkvöldi.
Að sögn aðstoðarlögreglustjóra héraðsins, Faruq Ahmed, kom til átaka á milli lögreglu og flokksmanna þegar lögregla handtók fjóra námsmenn sem styðja Jamaat flokkinn.
Kamaruzzaman var dæmdur til dauða fyrir að hafa ekki gripið til aðgerða þegar fjöldamorð voru framin í landinu þegar það reyndi að fá sjálfstæði frá Pakistan árið 1971.