Rúmlega fertugur svartur maður var tekinn af lífi í Missouri-ríki í nótt þrátt fyrir hávær mótmæli en allir þeir sem sátu í kviðdómnum eru hvítir.
Ríkisstjóri Missouri, Jay Nixon, neitaði að þyrma lífi Andre Cole, 42 ára, og hæstiréttur Bandaríkjanna neitaði að fresta aftökunni.
Cole var dæmdur til dauða fyrir fyrir að hafa stungið og myrt Anthony Curtis, vin fyrrverandi eiginkonu sinnar, árið 1998. Þetta var ekki eina árásin sem hann hafði gerst sekur um því hann hafði ítrekað stungið fyrrverandi eiginkonu sína vegna þess að hún dró hann fyrir dóm vegna meðlagsskulda hans. Hún lifði hins vegar ofbeldið af. Tólf hvítir kviðdómendur fundu hann sekan en þremur svörtum mögulegum kviðdómendum hafði verið vísað frá.
Cole, sem dvaldi í fjórtán ár á dauðadeild, var úrskurðaður látinn klukkan 22.24 að staðartíma, klukkan 3.24 í nótt að íslenskum tíma, í Bonne Terre-fangelsinu.
Allt fram á síðustu stundu reyndu lögmenn Coles, trúarleiðtogar, mannréttindasamtök auk fjölmargra aðgerðasinna að fá mál hans tekið upp að nýju. Cole er tólfti fanginn sem er tekinn af lífi í Bandaríkjunum það sem af er ári og sá þriðji í Missouri.