Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, kemur til Íslands á morgun, 16. apríl, í boði Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra. Framkvæmdastjórinn mun eiga samtöl við forsætisráðherra, utanríkisráðherra og innanríkisráðherra, auk þess sem hann mun kynna sér varnartengda starfsemi Landhelgisgæslu Íslands á Keflavíkurflugvelli og loftrýmisgæslu Bandaríkjanna, sem fram fer nú um stundir undir merkjum Atlantshafsbandalagsins.
Einnig mun Stoltenberg eiga fundi með forseta Alþingis og fulltrúum utanríkismálanefndar þingsins, sem og skoða varðskipið Þór. Þá mun framkvæmdastjórinn heimsækja Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, segir í fréttatilkynningu.
Framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins heldur af landi brott að morgni föstudags.