Alþjóðabankinn lánaði rúmlega þrjá milljarða dollara til verkefna sem tengjast jarðefnaeldsneyti á síðasta fjárhagsári, tæplega fjórðungi meira en árið áður, þrátt fyrir að forseti bankans hafi ítrekað kallað eftir því að hætt verði að veita opinbera styrki til olíu-, kola- og gasvinnslu í heiminum.
Samkvæmt nýrri greiningu Oil Change International, hugveitu sem er gagnrýnin á notkun kolefnaeldsneytis, lánaði Alþjóðabankinn 3,4 milljarða dollara til verkefna í kolefnaeldsneytisvinnslu í þróunarheiminum á fjárhagsárinu 2013-14. Þetta er hæsta upphæðin sem veitt hefur verið til slíkra verkefna í fjögur ár og 23% hækkun miðað við fjárhagsárið á undan.
Jim Yong Kim, forseti bankans, sagði við breska blaðið The Guardian á mánudag að heimurinn þyrfti að losa sig við niðurgreiðslur til kolefnaeldsneytisiðnaðarins strax. Ástæðan er loftslagsbreytingar sem hljótast af losun gróðurhúsalofttegunda sem á sér stað við bruna jarðefnaeldsneytis eins og olíu, gass og kola.
Talsmenn bankans segjast ósammála greiningu hugveitunnar. Hún skilgreini orkuverkefni á allt annan hátt en Alþjóðabankinn. Í raun hafi bankinn dregið úr stuðningi sínum við jarðefnaeldsneytisverkefni um nærri því helming á síðasta fjárhagsári.
„Starfsmenn bankans hafa hárrétt fyrir sér með áhyggjum af niðurgreiðslum til til jarðefnaeldsneytis en þeir þurfa að líta í eigin barm líka. Þeir lánuðu meira en þrjá milljarða dollara til jarðefnaeldsneytis í fyrra en það er allt klárlega niðurgreiðslur til framleiðslu jarðefnaeldsneytis. Alþjóðabankinn ætti að fara fram með góðu fordæmi en ekki reyna að fela að hlutirnir haldi áfram óbreyttir,“ segir Stephen Kretzmann, framkvæmdastjóri Oil Change International.
Frétt The Guardian af lánveitingum Alþjóðabankans til kolefnaeldsneytisframleiðslu