Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar á þriðjudag var tekin fyrir umsókn Valsmanna hf. „um leyfi til að byggja staðsteypt 3-5 hæða randbyggt fjölbýlishús, ellefu stigahús með 134 íbúðum og atvinnuhúsnæði á jarðhæð að Snorrabrautarás á tveggja hæða bílageymslu með 134 stæðum á lóð nr. 1-7 við Hlíðarenda,“ líkt og segir í fundargerð.
Afgreiðslu málsins var frestað á fundinum, en Brynjar Harðarson, framkvæmdastjóri Valsmanna, gerir sér vonir um að málið verði afgreitt á næstu vikum.
Brynjar segir í Morgunblaðinu í dag að um væri að ræða um 30 þúsund fermetra hús eða 93 þúsund rúmmetra. Aðspurður hver áætlaður kostnaður Valsmanna við byggingu Hlíðarenda 1-7 væri sagði Brynjar: „Framkvæmdakostnaður við þetta hús er áætlaður á bilinu fimm til sex milljarðar króna.“