Ættingjar og sendiráðunautar reyna nú að fá að heimsækja nokkra útlendinga sem hafa verið dæmdir til dauða fyrir fíkniefnabrot í Indónesíu því allt bendir til að það styttist í að þeir verði teknir af lífi.
Mary Jane Veloso, þjónustustúlka frá Filippseyjum, er ein þeirra tíu sem taka á af lífi og hefur hún verið flutt á eyjuna þar sem aftaka hennar á að fara fram.
Yfirvöld í Indónesíu hafa ráðlagt erlendum stjórnarerindrekum að fara til Nusakambangan, fangaeyjunnar þar sem aftökurnar eiga að fara fram, um helgina og undirbúa fjölskyldur fanganna fyrir sama ferðalag.
Chinthu Sukumaran, bróðir Myuran sem er annar Ástralanna sem taka á af lífi, er að undirbúa ferðalagið til eyjunnar frá Jakarta.
„Ég trúi þessu ekki. Við höfum ekki gefið upp alla von,“ segir hann í viðtali við Sydney Morning Herald.
Michael Chan, bróðir Andrew sem einnig á að taka af lífi vegna sama fíkniefnamáls, er á leið til Indónesíu, segir í sömu frétt.
Starfsfólki ræðismannsskrifstofu Brasilíu í Indónesíu var ráðlagt af stjórnvöldum í Indónesíu að koma til Cilacap á morgun en það sú hafnarborg sem er næst Nusakambangan.
Lögmenn Ástralanna eiga fund með starfsmönnum sendiráðs Ástralíu í Cilacap í fyrramálið og segjast stjórnvöld í Canberra hafa þungar áhyggjur af því að það styttist í að tvímenningarnir verði teknir af lífi.
Sendiherra Ástralíu í Jakarta reynir allt til þess að fá indónesísk stjórnvöld ofan af fyrirætlunum sínum um að taka útlendingana af lífi en ekkert miðar í þá átt.
Fangarnir dauðadæmdu eru frá Ástralíu, Frakklandi, Brasilíu, Filippseyjum, Nígeríu og Gana.
Mary Jane Veloso, sem er gift og tveggja barna móðir (á tvo syni 6 og 12 ára) var flutt í morgun til Nusakambangan og brutust út hávær mótmæli vegna þessa í höfuðborg landsins, Manila.
Veloso heldur því fram að fjölskylduvinur, sem starfar fyrir alþjóðlegan glæpahring, hafi án hennar vitneskju komið heróíni fyrir í tösku hennar. Hún var handtekin á Yogyakarta flugvellinum árið 2009.
Í janúar voru sex eiturlyfjasmyglarar teknir af lífi í Indónesíu, þar af fimm útlendingar. Yfir 130 manns eru á dauðadeildum í landinu, þar af 57 sem hafa verið dæmdir til dauða fyrir eiturlyfjasmygl.