Verslunarmiðstöðvar, söfn, dómstólar, háskólar, opinberar stofnanir og hafnaboltaleikvangur lokuðu dyrum sínum í Baltimore í dag, í kjölfar þess að óeirðir brutust út í borginni í gær. Mikill viðbúnaður er í borginni, en til átaka kom milli óeirðarlögreglu og óeirðarseggja á gatnamótum Pennsylvania og W. North Avenue.
Að því er fram kemur hjá Washington Post brugðust friðsamlegir mótmælendur fljótt við og mynduðu vegg til að koma í veg fyrir mögnun átaka. Aðrir flúðu af vettvangi en úr lögregluþyrlum var hrópað á fólk að koma sér niður af húsþökum.
Hafnaboltaliðið Baltimore Orioles, sem frestaði leik dagsins, tilkynnti að leikur morgundagsins myndi fara fram, en að hann yrði lokaður almenningi. Bandarísku hjartaverndarsamtökin frestu ráðstefnu sem fram átti að fara í borginni og Vísindamiðstöð Maryland lokaði dyrum sínum og aflýsti heimsóknum sex skóla og 400 nemenda.
Fjöldi lögreglumanna og liðsmanna þjóðvarðliðsins gæta gata borgarinnar, en íbúar óttast að óeirðunum, sem brutust út í kjölfar útfarar Freddie Gray, sem lést af völdum áverka sem hann hlaut í haldi lögreglu, sé ekki lokið.
Larry Hogan, ríkisstjóri Maryland, hefur sagt að uslan megi rekja til óprúttinna þrjóta en borgaryfirvöld séu undirbúin fyrir nóttina. Hundruð borgarbúa hafa sýnt samstöðu með því að fara út á götu með sópa og fægisskóflur, ruslatunnur og poka, og taka til hendinni.