„Ég var í áfalli, ég var reið“

Móðirin skammar strákinn sinn.
Móðirin skammar strákinn sinn. Skjáskot af Sky

Kona frá Baltimore, sem varð heimsfræg eftir að hún húðskammaði son sinn í myndbandi sem birtist á samfélagsmiðlum, segist aðeins hafa verið að vernda son sinn. Sonur konunnar hafði ætlað sér að taka þátt í mótmælum sem hafa verið í borginni síðustu daga en móðir hans hélt nú síður.

Mótmæli hafa verið í borginni síðustu daga eftir að ungur svartur maður, Freddie Gray, lést í haldi lögreglu fyrir um tíu dögum síðan. Miklar óeirðir og átök brutust út í borginni og hefur þar verið lýst yfir neyðarástandi.

Í samtali við CBS sagði móðir drengsins Toya Graham að hún sé ekki frjálslynd móðir. „Allir vita það um mig,“ sagði Graham sem sagði jafnframt að hún hafi aðeins verið að vernda son sinn.

Sky News segir frá þessu.

„Þetta er minn eini sonur og í lok dags vil ég ekki að hann verði næsti Freddie Gray,“ sagði Graham sem er einstæð sex barna móðir. Hún sá son sinn klæddan í hettupeysu og með grímu ásamt mótmælendum í kjölfar útfarar Gray. „Þegar ég sá hann missti ég mig,“ sagði Graham. „Ég var í áfalli, ég var reið, því maður vill aldrei sjá barnið sitt taka þátt í svona.“

Sjá fyrri frétt mbl.is: Skammaði soninn fyrir ólæti

mbl.is