Ríkisstjóri Kaliforníu, Jerry Brown, gaf út tilskipun í dag sem skuldbindur ríkið til þess að herða enn róðurinn í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Loftslagsáætlun ríkisins var fyrir ein sú metnaðarfyllsta í Bandaríkjunum en Kalifornía er nú þegar vel á veg komin með að ná fyrri markmiðum sínum.
Samkvæmt tilskipuninni mun Kaliforníu draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40% miðað við losunin árið 1990 fyrir árið 2030. Núgildandi lög ríkisins gera ráð fyrir að dregið verði úr losuninni um 80% fyrir árið 2050. Forveri Brown í embætti, Arnold Schwarzenegger, skrifaði undir lög á sínum tíma sem fyrirskipuðu að losunin væri komin niður í þá sem var árið 1990 fyrir 2020 áður en 80% markinu yrði náð árið 2050. Embættismenn sögðu í dag að ríki sé vel á veg komið með að ná því markmiði.
Brown sagði að aukin samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda væri lífsnauðsynlegur til þess að hjálpa Kaliforníu að fjárfesta og samþykkja reglugerðir sem tryggi að langtímamarkmiðið náist. Ekki kemur hins vegar fram í tilskipuninni hvernig ríkið eigi að ná losunarmarkmiðunum.
„Með þessari tilskipun hefur Kalifornía sett sér sjálfri, öðrum ríkjum og löndum háleitt markmið en það er markmið sem verður að nást, fyrir þessa kynslóð og þær sem á eftir koma,“ sagði Brown í dag.
Kalifornía hefur orðið illa úti í miklum þurrkum undanfarin ár sem Brown segir að sé að minnsta kosti að hluta til af völdum loftslagsbreytinga sem eiga sér stað vegna losunar manna á gróðurhúsalofttegundum. Ríkið hefur meðal annars glímt við vatnsskort og mikla skógarelda vegna þurrkanna.