Ómerkti úrskurð um nálgunarbann

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Brynjar Gauti

Hæstiréttur ómerkti í dag úrskurð héraðsdóms Reykjavíkur, sem á mánudag hafnaði kröfu Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að staðfesta ákvörðun hans um að maður, sem grunaður er um ofbeldi, ógnandi hegðun og áreiti, sætti nálgunarbanni.

Héraðsdómur hafnaði kröfu lögreglustjóra m.a. á þeim forsendum að brotaþoli hefði fallið frá kröfu um nálgunarbann. Í dómi Hæstaréttar kemur hins vegar fram að vegna misvísandi bókana væri allsendis óljóst hvort brotaþoli hefði í raun fallið frá beiðni sinni.

Við fyrirtöku málsins 27. apríl var annars vegar bókað „Réttargæslumaður lýsti því yfir að hann hefði talað við brotaþola í síma nú í morgun og hefði hún þar lýst því yfir að hún félli frá kröfunni um nálgunarbann“ og hins vegar „Réttargæslumaður brotaþola tekur undir kröfu sækjanda og gerir kröfu um málskostnað“.

Það var því niðurstaða Hæstaréttar að ómerkja úrskurð héraðsdóms og vísa málinu heim til löglegrar meðferðar.

Vaknaði við að maðurinn var kominn inn í íbúðina

Hinn 22. apríl sl. var lögregla kölluð til vegna yfirstandandi líkamsárásar. Þá sagði brotaþoli að fyrrverandi sambýlismaður hennar hefði veist að henni þar sem hún sat í bifreið, kastað sér til og frá, haldið utan um háls sér svo hún átti erfitt með að ná andanum og kýlt hana í höfuðið.

Vitni gaf sig á tal við lögreglu og sagðist hafa stöðvað manninn, sem hljóp á brott. Samkvæmt ákverkavottorði hlaut brotaþoli rifbrot og yfirborðsáverka á hálsi og höfði.

Í úrskurði héraðsdóms frá 27. apríl kemur fram að lögregla hafi tvisvar verið kölluð til vegna heimilisofbeldis af hálfu mannsins síðustu þrjár vikur, en í annað skiptið vaknaði konan við að hann var kominn inn á heimili hennar án leyfis. Í seinna skiptið kvaðst konan hafa orðið fyrir ofbeldi og hótunum frá manninum, m.a. líflátshótunum.

Var það mat lögreglustjóra að fyrir lægi rökstuddur grunur um að maðurinn hefði brotið með ofbeldi gegn fyrrverandi sambýliskonu sinni og velferð hennar, og að hætta væri á að hann héldi áfram með ógnandi hegðan og ofbeldi. Ekki yrði talið sennilegt að friðhelgi hennar yrði vernduð með öðrum og vægari hætti eins og sakir stæðu.

mbl.is