„Á að taka mig af lífi?“

AFP

Prestur sem ræddi við brasilíska fangann, Rodrigo Gularte, áður en hann var tekinn af lífi í Indónesíu, segir að Gularte, sem glímdi við geðsjúkdóma, hafi ekki haft hugmynd um að það ætti að taka hann af lífi allt fram að aftökunni. 

Gularte var greindur með geðklofa (paranoid schizophrenia) og geðhvörf (bipolar disorder). Hann var einn þeirra átta sem voru skotnir til bana af aftökusveit í Indónesíu fyrr í vikunni fyrir brot á eiturlyfjalöggjöf landsins.

Presturinn segir að hann hafi reynt í þrjá daga að útskýra fyrir fanganum að hann væri að fara að deyja.

Guardian hefur eftir prestinum að Mary Jane Veloso, frá Filippseyjum, hafi vitað af konunni sem gaf sig fram við lögreglu og kom þar að leiðandi í veg fyrir að Veloso yrði tekin af lífi en þrátt fyrir það hafi Veloso ekki verið flutt úr fangelsinu þar sem aftakan fór fram fyrr en klukkustund áður en hún átti að fara fram.

Rodrigo Gularte, 42 ára, var skotinn til bana fyrir að smygla kókaíni til Indónesíu árið 2004. Hann var greindur með geðklofa og geðhvörf af læknum en önnur greining, sem ríkissaksóknari Indónesíu lét gera, hefur ekki verið birt opinberlega.

Hitti hann í síðasta skiptið þegar búið var að festa fangann á viðarplötuna

Fangelsispresturinn Charlie Burrows segir að  hann hafi árangurslaust reynt að útskýra fyrir Gularte í þrjá daga að það ætti að taka hann af lífi.

„Hann heyrði raddir allan tímann,“ segir Burrows í viðtali við írska ríkisútvarpið. „Ég talaði við hann í um það bil eina og hálfa klukkustund og reyndi að undirbúa hann fyrir aftökuna. Ég sagði við hann: Ég er 72 ára gamall og ég mun fara til himna í náinni framtíð svo þú reynir að finna hvar hús mitt er og undirbúa garðinn fyrir mig.“

„En þegar þeir [fangaverðirnir] fóru með fangana út úr klefum sínum.. og þegar þeir settu þessa bölvuðu hlekki á þá sagði hann við mig: „Á að taka mig af lífi?“, segir Burrows.

„Ég svaraði játandi og sagðist halda að ég hefði útskýrt það fyrir honum. Hann hélt ró sinni - hann var þessi þögla manngerð - en hann sagði þetta er ekki rétt,“segir Burrows.

Vegna geðklofans var hann ekki með hlutina á hreinu, segir presturinn. „Hann spurði hvort það væri leyniskytta tilbúin fyrir utan til að skjóta hann en ég neitaði því og þá spurði hann hvort það myndi einhver skjóta hann í bílnum og ég neitaði því,“ segir Burrows í viðtalinu.

Eftir að búið var að festa Gularte á viðarplötu fékk Burrows að hitta hann á ný. „Hann sagði þetta er ekki rétt. Ég gerði ein lítil mistök og ég á ekki að deyja fyrir það.“

Brotnaði saman í síðustu heimsókn barnanna

Burrows segir í viðtali við Guardian að fangaverðirnir í  Nusa Kambangan, fangaeyjunni þar sem aftökur fara fram í Indónesíu, hafi brotnað saman og farið að hágráta þegar hin þrítuga Mary Jane Veloso kvaddi börnin sín í síðasta skiptið að því hún hélt.

Hann segir að Veloso hafa þóst vera glöð þegar fjölskylda hennar kom í síðustu heimsóknina, meðal annars synir hennar 6 og 12 ára, en hún hafi brotnað niður klukkan 14 á þriðjudag þegar henni var sagt að það væri tímabært að kveðja þá endanlega. „Hún grátbað um meiri tíma. Fæ ég ekki lengri tíma með börnunum mínum? Þau munu aldrei sjá mig aftur og ég mun aldrei hitta þá aftur,“ hefur Burrows eftir henni.

Hann segir að bæði fangaverðir og saksóknarar hafi verið ósáttir við aftökurnar en þetta væri þeirra starf.

Einhverjir fangavarðanna hafi spurt hann um hvort þeir bæru ábyrgð á þjáningum hennar og fjölskyldu hennar. 

Veloso var handtekin í Yogyakarta árið 2010 með 2,6 kg af heróíni í ferðatösku sinni. Hún segist vera fórnarlamb mansals og hún hafi verið leidd í gildru. Hætt var við aftöku Veloso eftir að kona sem grunuð er um mansalið gaf sig fram við lögreglu á Filippseyjum. Veloso var greint frá því síðdegis á þriðjudag en svo virtist sem örlög hennar væru ráðin. Hún yrði tekin af lífi ásamt hinum á miðnætti.

Það var síðan á milli 22 og 23 um kvöldið, þegar fangarnir voru lokaðir inni í klefum sínum í síðasta skiptið, að farið var með hana á brott. 

Rodrigo Gularte
Rodrigo Gularte AFP
Rodrigo Gularte
Rodrigo Gularte AFP
Mary Jane Veloso
Mary Jane Veloso AFP
Synir Mary Jane Veloso, Mark Danielle og Mark Darren,
Synir Mary Jane Veloso, Mark Danielle og Mark Darren, AFP
Mary Jane Veloso,
Mary Jane Veloso, AFP
AFP
AFP
mbl.is