Hlaut áverka í lögreglubílnum

Saksóknari þarf að ákveða hvort lögreglumennirnir sex verði ákærðir.
Saksóknari þarf að ákveða hvort lögreglumennirnir sex verði ákærðir. AFP

Freddie Gray, 25 ára blökkumaður í Baltimore í Bandaríkjunum, hlaut áverka á mænu þegar honum var skellt inn í lögreglubíl eftir handtöku. Hann lést fyrir rúmri viku af völdum áverkanna.

Í skýrslu sem hefur verið gefin út um málið kemur fram að áverkar á höfði passi við bolta sem er að finna í aftursæti bílsins. Handtakan náðist á myndband en þar má sjá hvernig lögreglumenn skella Gray í jörðina með tilheyrandi sársaukaöskri Gray.

Í skýrslunni segir einnig að ekkert bendi til þess að Gray hafi slasaðist alvarlega við sjálfa handtökuna.

Sá sem ók lögreglubílnum nam fjórum sinnum staðar á leið sinni á lögreglustöðina. Í fyrsta skipti voru járn sett um fætur Grays þar sem hann varð „æfur“ að sögn lögreglu. Ekki kemur fram af hverju bíllinn var stöðvaður í annað skiptið en í það þriðja var það vegna þess að óskað hafði verið eftir auka mannskap til að hafa auga með Gray. Í fjórða skiptið kom fangi upp í bílinn.

Það er nú saksóknara að meta hvort sex lögreglumenn sem tóku þátt í handtökunni verði ákærðir. Maðurinn sem gegnir stöðu saksóknara í Baltimore er sá yngsti til að gegna stöðunni í öllum ríkjum Bandaríkjanna. Hann er 35 ára svartur demókrati.

mbl.is