Forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Jean-Claude Juncker, varaði í morgun forsætisráðherra Ungverjalands, Viktor Orban, við afleiðingunum af því ef reynt verði að taka dauðarefsingar upp á nýjan leik í landinu.
Juncker segir að Orban eigi strax að gera hreint fyrir sínum dyrum og segja að ekki standi til að koma dauðarefsingum á. Að öðrum kosti standi hann frammi fyrir bardaga. Juncker minnir á að stofnskrá Evrópusambandsins útiloki að dauðarefsingum sé beitt í ríkjum innan bandalagsins.
Oban óskaði í gær eftir umræðu um hvort taka eigi upp dauðarefsingar upp á nýjan leik í Ungverjalandi. Hann telji refsingar allt of veikar í landinu. Ummæli hans vöktu strax mikla reiði en Oban er öllu vanur í þeim efnum enda hefur hann ítrekað lent upp á kant við ráðamenn í Brussel meðal annars varðandi mannréttindabrot og önnur brot á borgaralegum réttindum í landi.
Hægrimaðurinn Orban hefur verið forsætisráðherra í fimm ár í Ungverjalandi en fylgi flokks hans hefur minnkað undanförnu og færst yfir til þjóðernisflokksins Jobbik sem styður dauðarefsingar og harða stefnu gagnvart innflytjendum.
Ungverjar afnámu dauðarefsingar við lok kommúnismans árið 1990 og samkvæmt reglum Evrópusambandsins, en Ungverjaland hefur verið í ESB síðan 2004, getur landið ekki tekið upp dauðarefsingar á ný.