Þúsundir tóku þátt í mótmælum á austurströnd Bandaríkjanna í gærkvöldi. Var þess krafist að allir væru jafnir fyrir lögum og fengju sömu meðferð hjá lögreglu, óháð litarhætti.
Fjölmennust voru mótmælin í Baltimore en þar hefur verið lýst yfir neyðarástandi og útgöngubann gildir þar að næturlagi eftir að óeirðir brutust út í kjölfar þess að ungur svartur maður lést í haldi lögreglu. Fleiri þúsund tóku þátt í göngunni þar og lokuðust allar helstu götur í miðborginni vegna mannfjöldans.
Rólegt var í Baltimore í nótt, aðra nóttina í röð, en útgöngubannið tók gildi klukkan tíu í gærkvöldi.
Eins tóku þúsundir þátt í mótmælum í New York, Washington og Boston.