„Þá hófst þriðja heimstyrjöldin“

Michael Singleton vissi að hann væri í vanda staddur þegar …
Michael Singleton vissi að hann væri í vanda staddur þegar að hann sá móður sína í fjöldanum. Skjáskot af CNN

Þegar að unglingsdrengur frá Baltimore setti á sig grímu og fór út til þess að taka þátt í óeirðum í borginni, grunaði hann ekki að milljónir manna myndu sjá móður hans húðskamma hann á Youtube seinna sama dag.

Horft hefur verið yfir sex milljón sinnum á myndbandið sem sýnir móður drengsins, Toya Graham, slá og öskra á sextán ára gamlan son sinn, Michael Singleton. Graham sá son sinn haldandi á múrsteini og missti sig að hennar eigin sögn.

Fyrri frétt mbl.is: „Ég var í áfalli, ég var reið“

Eftir að myndbandið komst í dreifingu á samfélagsmiðlum hlaut Graham m.a. titilinn „móðir ársins“ á Twitter en hún sá til þess að sonurinn tæki ekki þátt í óeirðum sem brutust út í Baltimore í kjölfar þess að ungur svartur maður, Freddie Gray, lést í haldi lögreglu. 

Á myndbandinu má sjá að Singleton er augljóslega ekki ánægður með framtak móður sinnar. En í samtali við CNN  í gær viðurkenndi hann að móðir hans hafi einungis verið að vernda hann. 

„Hún vildi ekki að ég myndi komst í kast við lögin. Hún vildi ekki að ég yrði næsti Freddie Gray,“ sagði Singleton í samtali við CNN. 

Drengurinn viðurkenndi að þegar hann sá móður sína vissi hann strax að hann væri kominn í vandræði. Kvöldið áður hafði hann lofað mömmu sinni að taka ekki þátt í ofbeldinu. 

„Þá hófst þriðja heimstyrjöldin,“ sagði Singleton þegar hann var beðinn um að lýsa augnablikinu þegar að móðir hans sá hann. 

Graham sagði í samtali við CNN að hún hefði ekki áhyggjur yfir því að gera son sinn að fífli fyrir framan mannfjöldann. Hún sagði þó að með því að klæðast grímu og hettupeysu og gera það sem hann var að gera væri hann að hafa sjálfan sig að fífli. 

„Ég varð tilfinninganæm. Þú veist, þegar hann kastaði steininum niður sagði ég við hann „Þú varst ekki alinn svona upp“,“ sagði Graham. 

Móðirin skammar strákinn sinn.
Móðirin skammar strákinn sinn. Skjáskot af Sky
mbl.is