Andlát Gray var manndráp

Málið verður prófraun fyrir Marilyn J. Mosby, sem er aðeins …
Málið verður prófraun fyrir Marilyn J. Mosby, sem er aðeins 35 ára gömul og ný í starfi. AFP

Sex lögreglumenn hafa verið ákærðir í tengslum við dauða Freddie Gray, sem lést af völdum áverka sem hann hlaut í haldi lögreglu. Ákærurnar eru í nokkrum liðum en a.m.k. einn mannanna hefur verið ákærður fyrir manndráp.

Ríkissaksóknarinn Marilyn J. Mosby sagði í dag að handtökuskipanir hefðu verið gefnar út vegna málsins. Mennirnir eru m.a. ákærðir fyrir líkamsárás og fyrir að hafa látið fyrir fara að veita manni í nauð aðstoð.

„Ég ítrekaði við fjölskyldu [Gray] að enginn væri hafinn yfir lögin, og að ég myndi leita réttlætis fyrir þeirra hönd,“ hefur Washington Post eftir Mosby, en Gray lést af völdum hryggáverka sem hann hlaut eftir að hann var handtekinn 12. apríl sl. og færður í lögreglubíl, sem stöðvaði nokkrum sinnum á leið á lögreglustöðina.

Mosby staðfesti einnig í dag að handtaka Gray hefði verið óréttmæt; vasahnífur sem hann bar á sér hefði verið lokaður og löglegur.

Hún sagði að lögreglumennirnir hefðu hunsað beiðni Gray, 25 ára, um læknisaðstoð, jafnvel þegar hann hefði sagt að hann ætti erfitt með að ná andanum. Hún sagði að hann hefði óskað eftir úðatæki á meðan bílferðinni stóð, að hann hefði sýnt líkamlega einkenni kasts en hefði verið haldið gegn vilja sínum.

Hann var ekki beltaður í bílnum, að sögn Mosby. „Gray hlaut meiriháttar og lífshættulegan hálsáverka í kjölfar þess að hafa verið handjárnaður, járnaður á fótum og hafður óbundinn í bílnum,“ sagði hún.

Mosby vottaði fjölskyldu Gray samúð sína. Borgaryfirvöld í Baltimore hafa gert ráðstafanir vegna mótmæla og fjöldafunda í dag, en útgöngubann er enn í gildi á næturna.

Ítarlega frétt um stöðu mála er að finna hjá Washington Post.

Íbúar Baltimore setja hnefann á loft fyrir Freddie Gray.
Íbúar Baltimore setja hnefann á loft fyrir Freddie Gray. AFP
Fólk gengur eftir götunum eftir að tilkynnt var að dauði …
Fólk gengur eftir götunum eftir að tilkynnt var að dauði Gray hafi verið úrskurðaður manndráp. AFP
mbl.is