Útgöngubann var í gildi þriðja kvöldið í röð í gærkvöld og nótt í Baltimore eftir að miklar óeirðir brutust út í borginni í byrjun vikunnar. Götur borgarinnar tæmdust nokkuð hratt og örugglega þegar lögreglumenn tóku sér stöðu klukkan tíu í gærkvöldi að staðartíma.
Freddie Gray, 25 ára blökkumaður í Baltimore í Bandaríkjunum, hlaut áverka á mænu þegar honum var skellt inn í lögreglubíl eftir handtöku. Hann lést fyrir rúmri viku af völdum áverkanna. Við það hófust mótmæli og óeirðir í kjölfar þeirra.
Í skýrslu sem hefur verið gefin út um málið kemur fram að áverkar á höfði passi við bolta sem er að finna í aftursæti bílsins. Handtakan náðist á myndband en þar má sjá hvernig lögreglumenn skella Gray í jörðina með tilheyrandi sársaukaöskri Gray.
Í skýrslunni segir einnig að ekkert bendi til þess að Gray hafi slasaðist alvarlega við sjálfa handtökuna.